1.1.2007 22:38

Mánudagur, 01. 01. 07.

Nýársdagur var bjartur og fagur, þegar ég fór í Dómkirkjuna klukkan 11.00, þar sem herra Karl Sigurbjörnsson biskup prédikaði.

Þegar ekið er um borgina, má víða sjá miklar pappaleifar eftir rakettu- og sprengjuflug gamlárskvölds. Vonandi verða leifarnar hreinsaðar sem fyrst og áður en þær verða að blautum og ljótum klessum. Þegar ég var strákur, var mikið sport að ganga um og leita að rakettuprikum eftir gamlársdag. Það eru greinilega ekki allir, sem nenna að hirða pappadraslið eftir sig. Skotpallarnir fyrr á árum voru ekki eins fyrirferðarmiklir - flöskur eða einfaldlega snjóskaflar.

Það ber ekki vott um mikla trú á eigin málstaða að fjargviðrast yfir því, að Alcan sendi Hafnfirðingum vinsælan hljómdisk Björgvins Halldórssonar eða taki að sér að kosta Kryddsíldina á Stöð 2.

Ákveðið hefur verið að efna til atkvæðagreiðslu um framtíð álvers Alcans í Hafnarfirði.  Af þessum kvörtunum vegna hljómdisksins eða kostunarinnar mætti draga þá ályktun, að andstæðingar Alcans litu svo á, að fyrirtækið væri vanhæft til að berjast fyrir eigin framtíð. Svo er auðvitað ekki og forystumenn fyrirtækisins héldu vel á málum, þegar nokkrir Hafnfirðingar neyttu þess réttar síns að skila aftur hljómdisknum, af því að þeim líkaði ekki við gefandann.

Þegar Hjörleifur Guttormsson var iðnaðarráðherra fyrir tæpum 30 árum, ætlaði hann að gera út af við álverið í Straumsvík, sem þá var í eigu Alusuisse, með því að sanna, að fyrirtækið hefði hagnast óeðlilega á því, sem þá var kallað „hækkun í hafi“. Aðför Hjörleifs var áreiðanlega til þess að draga úr áhuga erlendra fjárfesta á að skoða kosti á Íslandi - en honum tókst ekki að koma Alusuisse á kné. 

Á þessum árum var í tísku meðal vinstrisinna að útmála alþjóðleg fyrirtæki sem einskonar svikamyllur og kommúnistum var sérstaklega mikið í nöp við þau. Nú á tímum alþjóðavæðingar gengur sambærilegur hræðsluáróður við eðli þessara fyrirtækja ekki og þá er ráðist á þau í nafni umhverfis- og náttúruverndar. Árásir af því tagi eru heldur máttlitlar miðað við hina miklu framfarir, sem hafa orðið við hreinsun úrgangs.

Þótt komi ný öld og nýtt ár, fyllast margir enn heilagri vandlætingu, þegar að alþjóðafyrirtækjum kemur. Ekki er með neinum haldbærum rökum unnt að gera lítið úr gildi álversins í Straumsvík fyrir íslenskan efnahag og sem vinnustaður nýtur það vinsælda og virðingar - þá er gripið til þess ráðs að gera þar tortyggilegt vegna hljómdisks og kostunar á sjónvarpsþætti.