28.1.2007 21:39

Sunnudagur, 28. 01. 07.

Eftir að hafa skoðað nýju og glæsilegu Klausturstofuna við Þingeyrakirkju undir leiðsögn Erlendar Eysteinssonar, ókum við heim á leið. Allt annað var að aka í birtu en að kvöldlagi. Stóru flutningabílarnir slá ekki neitt af, þegar þeir koma á móti manni, hins vegar sýndu þeir lipurð við að hleyoa framúr.

Pólitísk tíðindi settu svip sinn á fréttir:

1. Jón Baldvin Hannibalsson telur Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur ekki fiska nóg fyrir Samfylkinguna. Í stað þess að skipta nú um kaptein í brúnni, vill hann frekar stofna nýjan flokk! Ég minni á tillögu mína um, að Ingibjörg Sólrún fari að dæmi Össurar fyrir fjórum árum og finni forsætisráðherraefni fyrir Samfylkinguna - Össur?

2. Þrátt fyrir, að Valgerður Sverrisdóttir hafi andmælt því í ræðu í Háskóla Íslands, að karlar settust á rökstóla í reykmettuðum bakherbergjum, virðist það einmitt hafa gerst við val á frambjóðanda í stað Hjálmars Árnasonar í þriðja sæti á lista framsóknarmanna í Suðurkjördæmi.

3. Svikabrigslin ganga á milli manna innan Frjálslynda flokksins. Margrét Sverrisdóttir telur ósigur sinn í varaformannskjörinu byggjast á kosningamisferli og hyggst hún kæra, þótt hún viti ekki hvert. Margrét hefur einnig sagt, að hún hafi um nokkurra vikna skeið búið við stöðugt níð á útvarpi Sögu. Þessari útvarpsstöð hefur raunar verið líkt við nútíma níðsstöng, því að engu er líkara en þráðurinn í sendingum hennar byggist á stöðugu níði.