Föstudagur, 26. 01. 07.
Lögreglan á höfuborgarsvæðinu vann afreksverk í gærkvöldi, þegar hún stöðvaði dráttarbíl í ofsaakstri sjúks manns, áður en stórslys varð. Samhent og skjót viðbrögð hins nýstofnaða lögregluliðs á höfuðborgarsvæðinu réðu þarna úrslitum.
Klukkan 14.00 komum við efstu menn á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins saman til fundar í Valhöll til að bera saman bækur okkar vegna komandi þingkosninga, þetta er öflugur hópur með góðan málstað og á því skilið gott brautargengi í kosningunum, enda mun forsjálni og skynsemi ráða afstöðu háttvirtra kjósenda.
Mér var falið að reifa stöðuna í Evrópumálum og varnarmálum á fundinum. Ég er þeirrar skoðunar, að Evrópumál verði ekki ofarlega á dagskrá fyrir kosningarnar, því að enginn flokkur mun gera tillögu um aðild að Evrópusambandinu. Í varnarmálum hefur verið haldið vel á málum og unnið eins vel og kostur er úr þeirri stöðu, sem skapaðist við brottför varnarliðsins.
Ég var spurður um fyrirhugaða greiningardeild á vegum utanríkisráðuneytisins á Keflavíkurflugvelli og hvernig verkaskipting yrði milli hennar og greiningarstarfsemi á vegum ríkislögreglustjóra. Ég sagðist ekki geta svarað fyrir utanríkisráðuneytið, þar sem ég þekkti ekki lögheimildir þess, hins vegar hefði verið ákveðið með breytingu á lögreglulögum að stofna greiningardeild hjá ríkislögreglustjóra.