14.1.2007 19:06

Sunnudagur, 14. 01. 07.

Af viðtali við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, í Morgunblaðinu í dag verður ráðið, að sú skoðun höfundar Reykjavíkurbéfs blaðsins í dag sé rétt, að þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson telji síðasta tækifæri sitt til að setjast í ríkisstjórn verða að loknum þingkosningunum 12. maí nk. Spurning er að vísu, hvort Össur kæmist í stjórn með Ingibjörgu Sólrúnu, því að hún ætlar að hafa jafnmargar konur og karla í liði sínu.

Augljóst er af viðtalinu við Ingibjörgu Sólrúnu, að málefni verða henni ekki til trafala, ef hún gengur til samninga um stjórnarmyndun eftir 12. maí. Allt, sem hún segir um einstök mál, er svo losaralegt og almennt, að þann leir er unnt að hnoða að vild.

Af viðtalinu mætti álykta, að sérstakir þræðir lægju á milli kvenna í stjórnmálum og þar væri um launhelgar að ræða, sem við karlarnir skiljum ekki.

Reynsla þeirra, sem störfuðu með Ingibjörgu Sólrúnu í R-listanum, var á þann veg, að þeir settu henni að lokum afarkosti, af því að þeir treystu henni ekki. Sé litið yfir feril Ingibjargar Sólrúnar og framgöngu hennar, virðist ekki auðvelt að eiga við hana samstarf, grunnt sé á sérhagsmunagæslu, sem leiði til flokkadrátta. Nýjasta dæmið er auðvitað talið um  stjórnarandstöðuflokkana sem augljósan kost í stað ríkissjórnarinnar, en í Morgunblaðsviðtalinu segir Ingibjörg Sólrún þetta samstarf í raun ekki annað en kaffispjall - líklega minnkaði áhugi hennar eftir að Steingrímur J. krafðist þess að verða forsætisráðherra.

Þegar litið er til þess, hvernig Ingibjörg Sólrún hefur talað til sjálfstæðismanna um langt árabil, er einkennilegt að telja þá áhugamenn um að hefja hana til meiri valda.