27.1.2007 17:14

Laugardagur, 27. 01. 07.

Ókum norður í Húnavatnssýslu í gærkvöldi og vorum um hádegi á Blönduósi og tókum síðan þátt í hátíðarhöldum þar með Bjarna Stefánssyni sýslumanni, Jóni Ísberg, fyrrverandi sýslumanni, starfsmönnum sýsluskrifstofunnar og öðrum gestum, þegar Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar var formlega opnuð, en hún hefur verið starfrækt frá því sl. haust og með henni bættust 11 starfsmenn í hóp þeirra, sem vinna á sýsluskrifstofunni. Er gaman að fylgjast með því, hve vel hefur tekist að þróa þessa starfsemi á Blönduósi.

Hér má sjá myndir Jóns Sigurðssonar, fréttaritara Morgunblaðsins, frá athöfninni á Blönduósi.

Fyrir utan gott starfsfólk og forystu sýslumanns skipti miklu, að aðstaða var í stjórnsýsluhúsinu á staðnum til að hýsa þessa nýju starfsemi og má þakka það framsýni Jóns Ísbergs, sem réðst í það stórvirki á sínum tíma að reisa stjórnsýsluhúsið og voru ekki allir á eitt sáttir um það þá, þótt ástæða sé til að fagna framsýni hans nú.

Ég sé, að eitt orð féll úr texta mínum á fimmtudaginn, þegar ég var að velta því fyrir mér, hvort ég væri bloggari eða ekki, og mátti lesa það úr textanum, áður en ég leiðrétti hann, að ég kippti mér upp við að vera kallaður bloggari, en átti að standa, að ég kippti mér ekki upp við það, bið ég lesendur afsökunar á þessari fljótaskrift.

Ég hef síðan fengið ábendingar um, hvað felist í að vera bloggari og segir einn bréfritari, að í því felist meðal annars, að unnt sé að gera athugasemd við skrifin á sömu síðu og þau birtast. Mín síðan er ekki hönnuð á þennan hátt, svo að huga þessa manns er ég líklega ekki bloggari. Nú hefur Morgunblaðið tilkynnt, að unnt verði að gera athugasemdir við ritstjórnargreinar þess á vefsíðu blaðsins, þar með eru leiðara- eða staksteinahöfundar blaðsins orðnir bloggarar samkvæmt þeirri skilgreiningu, að í bloggi felist, að unnt sé að gera athugasemd á sömu síðu og upphafleg skrif höfundar birtast.