12.1.2007 16:46

Föstudagur 12. 01. 07.

Var klukkan 15.00 í austurhöfninni, þar sem grafið hefur verið niður fyrir sjávarmál vegna tónlistarhússins og nú var efnt til hátíðlegrar athafnar vegna þess að fyrstu steypunni var rennt í grunninn.

Hér á síðunni er unnt að fylgjast með ákvörðunum um að ráðast í að reisa tónlistarhúsið á þessum stað en ég hét því þegar ég varð menntamálaráðherra vorið 1995, að fyrir lok kjörtímabilsins 1999 hefði ég búið svo um hnúta, að í smíði tónlistarhúss verði ráðist.

Portus Group byggir húsið og sagði Björgólfur Guðmundsson stjórnarformaður, að á öllum byggingarreitnum yrðu 200 þúsund fermetrar og skiptist það jafnt, að helmingurinn yrði neðan jarðar, þar yrðu verslanir og hvers kyns þjónusta. Hann taldi, að 1000 ný störf myndu skapast í hinum miklu mannvirkjum.

Með því að slá leitarorðið tónlistarhús inn í leitarreit síðu minnar má sjá margar færslur mínar um bygginguna.