11.1.2007 13:51

Fimmtudagur, 11. 01. 07.

Hitti Sören Gade, varnarmálaráðherra Dana, og fylgdarlið hans í björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð klukkan 09.00. Við skoðuðum miðstöðina og fórum síðan í höfuðstöðvar Landhelgisgæslu Íslands, þar sem Sören heiðraði þyrluáhöfnina, sem bjargaði sjö sjóliðum af danska eftirlitsskipinu Triton skammt frá Sandgerði 19. desember. Þá héldum við um borð í Triton, þar sem við rituðum undir samning um samstarf landhelgisgæslunnar og danska flotans. Loks fylgdumst við með sameiginlegri björgunaræfingu Dana og Íslendinga í Reykjavíkurhöfn með þáttöku þyrla af Triton og landhelgisgæslunnar. Klukkan 12.15 kvaddi ég Sören á hafnarbakkanum, þegar hann flaug með gæsluþyrlunni til Keflavíkurflugvallar.

Eygló Harðardóttir er í framboði í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, hún heldur úti bloggsíðu til að auka vinsældir sínar og vonandi einnig traust. Mér þótti þó ekki mjög traustvekjandi að lesa það á síðu hennar, að verið væri að fækka í lögreglunni í Vestmannaeyjum og flytja þaðan rannsóknarlögreglumann, eíns og hún gefur til kynna. Þetta á ekki við nein rök að styðjast, þvert á móti var það sjálfstæð ákvörðun, að rannsóknarlögreglumaður yrði áfram í Eyjum, þrátt fyrir rannsóknardeild á Selfossi og skýrði dóms- og kirkjumálaráðuneytið málið í fréttatilkynningu í gær.

Af þessu tilefni segir Eygló: „Við megum víst þakka fyrir að verkefnin skulu allavega ekki fara beint til Reykjavíkur eins Björn Bjarnason myndi eflaust helst vilja, en verði áfram í Suðurkjördæmi“

Skyldi það alveg hafa farið fram hjá Eygló, að ég hef ákveðið að flytja ritstjórn Lögbirtingarblaðsins til Víkur í Mýrdal og sýslumaðurinn þar mun einnig annast stjórnsýslu vegna útfararþjónustu? Þá hef ég ákveðið að flytja eftirlit með happdrættum til sýslumannsins á Hvolsvelli auk þess fleiri verkefni verða flutt úr dóms- og kirkjumálaráðuneytinu eins og hér má sjá.

Ég hvet Eygló Harðardóttur eindregið til að kynna sér málin betur, áður en hún tekur til við gagnrýni sína.