22.1.2007 19:57

Mánudagur, 22. 01. 07.

Hljóðlega lagði stjórnarandstaðan niður vopn í stríðinu um, hvort ríkisútvarpið verði ríkisstofnun eða ríkishlutafélag, og lýsti uppgjöf sinni í morgun á blaðamannafundi á tólfta tímanum.

Eftir óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra, sem hófust 10.30, þar sem ég var spurður um mál fanga, sem dæmdur er fyrir kynferðislegt áreiti í garð barna, og sagt var frá í þættinum Kompás á Stöð 2 að kvöldi 21. janúar, ræddi ég við nokkra þingmenn, og var á leið á brott frá þinghúsinu, þegar hinn vígreifi formaður menntamálanefndar, Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vék sér að mér og spurði, hvað væri að gerast, hann hefði séð það á skjánum á sjónvarpinu í skrifstofu sinni, að stjórnarandstöðuþingmennirnir hefðu allir dottið út af mælendaskránni. Ég sagðist ekki vita neitt um þetta, en kæmi ekki á óvart eftir útreiðina í málþófinu.

Næstu fréttir voru af blaðamannafundi, þar sem stjórnarandstaðan lýsti uppgjöf sinni. Þá gátu þingstörf hafist samkvæmt eðlilegri dagskrá og klukkan 15.00 voru tekin fyrir fjögur frumvörp frá mér: 1. um hertar refsingar þeirra, sem vega að öryggi lögreglumanna og annarra opinberra starfsmanna, sem hafa heimild til valdbeitingar; 2. um breytingar á dómstólalögunum; 3. um ríkisborgararétt og 4. um staðfestingu á samkomulagi ríkis og kirkju um prestssetur og að dóms- og kirkjumálaráðherra hætti að skipa sóknarpresta.

Umræður urðu mestar um ríkisborgaralögin og þá kröfu, að umsækjendur gangi undir íslenskupróf. Ég vakti einnig máls á því, sem ekki er í frumvarpinu, en ég óskaði eftir, að allsherjarnefnd skoðaði, hvort þrengja eigi verulega skilyrði fyrir tvöföldum ríkisborgararétti. Miðað við yfirlýstan áhuga frjálslyndra á málefnum útlendinga, var ég undrandi á því, að enginn þingmaður þeirra skyldi taka þátt í þessum umræðum.