9.1.2007 8:28

Þriðjudagur, 09. 01. 07.

Klukkan 14.30 fór ég með embættismönnum í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í heimsókn í höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að Hverfisgötu 113-115. Stefán Eiríksson lögreglustjóri og hans menn tóku vel á móti okkur og var gaman að kynnast hinum mikla sóknaranda, sem ríkir þarna. Ég staðfesti skipurit nýja embættisins og opnaði vefsíðu þess. Skráði ég mig sem notanda í Hlíðahverfi og á von á tilkynningum um það, sem er að gerast í mínu hverfi og lögreglan telur nauðsynlegt að miðla til mín. Skora ég á lesendur síðu minnar að nýta þessa nýju þjónustu lögreglunnar.

Þá var í dag gefið út tölublað af Vefriti dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, þar sem lýst er þeim breytingum, sem eru orðnar í lögreglumálum og vísað á fjölda nýrra reglugerða.

Guðmundur Magnússon tekur við boltanum frá höfundi Staksteina Morgunblaðsins í gær og telur, að ég eigi að afhenda safni skjöl í minni vörslu. Ég hef vissulega velt þessu oft fyrir mér en jafnoft horfið frá því, þar sem svo virðist sem ég verði að útvega fé til að skrá skjölin eða kosta skráninguna sjálfur. Ekkert safn hefur nokkru sinni að fyrra bragði óskað eftir einkaskjölum frá mér eða boðið mér að láta skrá það safn, sem ég hef í vörslu minni.

Á sínum tíma ákvað ég að láta Ljósmyndasafni Reykjavíkur í té mikið safn ljósmynda í minni vörslu. Myndirnar voru óskráðar en á þeim tíma, sem ég afhenti þær, var enn nokkur áhugi á að nota sumar þeirra og taldi ég einfaldast að geta bent á safn sem vörsluaðila. Þegar myndirnar höfðu verið í kössum í mörg ár og ekkert var gert í því skyni að skrá þær eða búa um þær á nokkurn hátt auk þess mér fannst, að stjórnendum safnsins þætti nokkur ami af þeim nema með fráhrindandi skilyrðum, ákvað ég einfaldlega að taka kassana aftur í mína vörslu.

Ég hef leitast við að aðstoða þá sagnfræðinga, sem til mín leita, ef ég veit, að mér er það fært án of mikils umstangs. Þau skjöl, sem vitnað er til í grein minni í Morgunblaðinu 6. janúar, eru til í fleiri eintökum en í minni vörslu og ég hef ekki borið saman gögn í minni vörslu og gögn, sem eru í Þjóðskjalasafni. Ég las þessi skjöl vegna greinar minnar í leit að því sérstaklega, hvernig rætt er um sovéskan síldarflota annars vegar og fimmtu herdeildina hins vegar. Aðrir lesendur skjalanna hefðu kannski verið að leita að einhverju öðru. sérstaklega ef þeir telja hættuna af síldarflotanum ímyndun og að fimmta herdeildin hafi aldrei verið nein ógn.

Hvorki höfundur Staksteina né Guðmundur Magnússon leituðu upplýsinga hjá mér, áður en þeir ræddu þessa gagnavörslu mína. Þeir hafa því ekki minnstu hugmynd um, hvernig skjalasafni í minni vörslu er háttað. Eitt er víst, að á mér hvílir ekki nein skylda til að afhenda skjölin öðrum. Hitt er umhugsunarefni, hvað skeytingarleysi um skjöl í einkaeign hefur leitt til mikillar eyðu í Íslandssögunni.

Ég hef sagt frá því hér á síðunni, þegar ég var í Churchill College í Cambridge í Englandi og heimsótti skjalasafn Churchills og Margrétar Thatcher. Umbúnaður þeirra skjala og aðstaða öll fyrir fræðimenn kallar beinlínis á rannsóknir og ritstörf. Þar hafa einkaaðilar tekið höndum saman í því skyni að forða sögulegum verðmætum frá eyðileggingu. Hér á landi þekkist slík alúð fjármálamanna við samtímasöguna ekki