19.1.2007 20:53

Föstudagur, 19. 01. 07.

Í Morgunblaðinu birtist í dag grein eftir mig, Um vígdreka og síldarflota, þar sem ég hafna því, að fyrir liggi ótvíræð gögn um, að Bandaríkjastjórn hafi látið undan þrábeiðni íslenskra stjórnvalda að senda fjóra tundurspilla á Íslandsmið sumarið 1950 vegna sovésks síldarflota á miðunum. Ég er þeirrar skoðunar, að íslenska og bandaríska ríkisstjórnin hafi verið samstiga í þessu máli en bandaríska herstjórnin hafi að sjálfsögðu tekið ákvörðun um að senda tundurspillanna á eigin forsendum en ekki Íslendinga.

Raunar skil ég ekki, hvers vegna Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur kýs að vera að þrefa um þetta mál í Morgunblaðinu, þar sem þetta er að sjálfsögðu ekki neitt lykilatriði í ákvörðunum Íslendinga og Bandaríkjamanna um varnarsamstarf.

Í morgun ræddi Jóhann Hauksson við Jón Ólafsson, prófessor á Bifröst, um þessi mál á útvarpi Sögu. Jóhann sleppti því að spyrja Jón, hvernig í ósköpunum hann hefði komist að þeirri niðurstöðu, að ríkisstjórn Íslands hefði ákveðið að styrkja öryggisþjónustu lögreglunnar í Reykjavík vegna sovéska síldarflotans. Í þessu samtali kveinkar Jón sér enn undan grein, sem ég ritaði í tilefni af umsögn hans um Óvini ríkisins. Jón veit ekki mikið um skoðanir mínar á þessum málum öllum, ef hann heldur mig álíta, að Sovétmenn hefðu gert árás á Ísland eitt, án þess að það væri liður í meiri hernaðaraðgerðum þeirra á Norður-Atlantshafi eða í Evrópu.

23. október 1969 hitti Bjarni Benediktsson forsætisráðherra William Rogers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Washongton en Bjarni var þar í tilefni af ráðstefnu Atlantshafsfélaganna, Atlantic Treaty Association vegna 20 ára afmælis NATO 4. apríl 1969.

Í frásögn af fundi ráðherranna kemur fram, að Bjarni hafi minnst á heimsókn sovéskra vígdreka til Íslands og talið Bandaríkjastjórn of viðkvæma (touchy) vegna hennar, þar sem hann teldi æskilegt að almenningi gæfist kostur á „að sjá vopnaða Rússa á bryndrekum, sem hann hefði einungis haft spurnir af. Slík sjón af eigin raun, myndi gera almenningi ljósari hættuna, sem af Rússum stafaði, og þar með opna betur augu hans fyrir nauðsyn á vörnum landsins. Mr. Rogers kvað State Department þakklátt fyrir hvernig á málum hefði verið haldið af Íslands hálfu, þ. e. a. s. að heimsókn rússnesku herskipanna hefði verið breytt í opinbera heimsókn. Hinsvegar væri bandaríska ríkisstjórnin uggandi út af slíkri heimsókn og teldi Rússa vera að reyna að ná fótfestu á Íslandi til að fá aðstöðu þar fyrir herskipaflota sinn á Atlantshafi og þyrfti að vera vel á verði gegn slíkum tilraunum. Forsætisráðherra taldi ekki ástæðu til að óttast vegna þessarar opinberu heimsóknar, og e. t. v. seinni eðlilegra opinberra heimsókna rússneskra herskipa, eins og herskipa annarra þjóða, sem við eigum vinsamleg viðskipti við. Íslenzka ríkisstjórnin myndi að sjálfsögðu ekki gefa neinn kost á því að rússnesk herskip fengju aðstöðu á Íslandi eða í íslenzkri landhelgi og myndi vera vel á verði gegn öllum tilraunum í þá átt.“

Magnús V. Magnússon var sendiherra Íslands í Washington á þessum tíma og ritaði frásögnina, sem hér er til vitnað. Hann var einnig með Bjarna á fundinum í Pentagon í september 1950, sem ég hef nefnt til sögunnar í greinum mínum í Morgunblaðinu. Hvað skyldu þeir segja um þessa frásögn Guðni Th. og Jón Ólafsson, sem halda því fram, að íslenska ríkisstjórnin hafi verið hræddari við Rússana en hin bandaríska?