2.1.2007 22:02

Þriðjudagur, 02. 01. 07

Frá morgni til kvölds mátti fylgjast með því í útvarpi og sjónvarpi, hvernig Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, varði fyrsta hvunndeginum í embætti sínu. Í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvanna var sagt frá göngueftirliti hans í Reykjavík í dag og hann kom í Kastljós í einkennisbúningi sínum. Framganga hans einkenndist af öryggi og þeirri viðleitni að skapa aukna öryggistilfinningu meðal borgaranna.

Í dag var ég í Hádegisviðtali við Kristján Má Unnarsson á Stöð 2 um breytingarnar á lögreglustjórninni 1. janúar og allt, sem þeim fylgir.

Í gær lét ég í ljós undrun yfir því hér á þessum stað, að verið væri að fjargviðrast yfir því, að Alcan kostaði útsendingu á Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag. Ég hafði ekki tök á að horfa á þáttinn en sá í fréttum í kvöld, að þau Steingrímur J. og Ingibjörg Sólrún höfðu þar deilt um, hvort þeirra ætti að verða forsætisráðherra í vinstri stjórn að loknum kosningum. Við skulum vona, að kjósendur leysi þau undan því að þurfa að rífast meira um þann stól!

Mér heyrist mestur áhugi á að ræða Kryddsíldina og Alcan vera hjá fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Mætti halda, að fólk talaði á annan veg en ella í þáttum af þessu tagi, eftir hver kostar þáttinn. Þetta er furðurlegt viðhorf. Ég held, að enginn stjórnmálamaður, sem kemur í þátt af þessu tagi, sé yfirleitt að velta því fyrir sér, hvort hann sé kostaður af þessum eða hinum. Eða er verið að gefa til kynna, að stjórnendur kostaðra þátta, dragi taum kostenda við stjórn sína á einstökum þáttum? 

Í hljóðvarpi ríkisins var þessi frétt flutt klukkan 18.00 á nýársdag um Kryddsíldina og Alcan:

 

„Alcan færir þér Kryddsíldina sagði í auglýsingu í áramótaþættinum Kryddsíld á Stöð 2 í gær en þar mætast leiðtogar stjórnmálaflokkanna í löngum árlegum umræðuþætti. Þátturinn hefur verið kostaður í mörg ár, lengi af ORA sem framleiðir síld en þetta er annað árið sem þátturinn er í boði Alcan. Alcan er nú í auglýsingaherferð vegna fyrirhugaðrar stækkunar álversins í Straumsvík. Umdeild var jólagjöf fyrirtækisins til Hafnfirðinga sem gaf geisladisk með Björgvini Halldórssyni og Sinfóníuhljómsveitinni og umdeild var einnig jólakveðja álfyrirtækisins í sjónvarpinu, Hátíð fer að höndum ein syngur þar kór, en umhverfið er kerskáli. Einhverjir kórfélaga neituðu að syngja með. Og nú er deilt um kostun stjórnmálaumræðu. Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstri-grænna líkar illa að hafa setið í sjónvarpinu í boði álrisa.

Steingrímur J. Sigfússon: Ja, ég kann nú heldur illa við það, að sérstaklega frétta af því eftir á. Aðstandendur þáttarins vöruðu mig ekkert við því að hann væri kostaður með þessum hætti.

Björg Eva Erlendsdóttir fréttakona: En er þetta verri kostun en hver önnur?

Steingrímur J. Sigfússon: Ja, mér finnst það orka mjög tvímælis og sérstaklega þegar um umræðuþátt er að ræða og almennt eru nú þessi kostunarmál oft á gráu svæði en mér finnst það eiginlega sérstaklega óviðeigandi að stórfyrirtæki sem stendur fyrir mjög umdeildum áformum ... umræðuþátt stjórnmálamanna af þessu tagi, það finnst mér óviðeigandi, já.


Sigmundur Ernir Rúnarsson, fréttastjóri Stöðvar 2, segir það aldrei hafa tíðkast að kynna þeim sem komi í þætti hverjir kosti þá enda hafi það engin áhrif á ritstjórnina. Magnús Þór Hafsteinsson, þingflokksformaður Frjálslyndra tekur undir með Steingrími um að svona kostun sé óviðeigandi en Ögmundur Jónasson, Vinstri-grænum gengur mun lengra og segir met hafa verið slegið í óskammfeilni og smekkleysu að stjórnmálaforingjar sitji frammi fyrir þjóð sinni í boði Alcan í kjölfar álinnpakkaðrar mútugjafar til Hafnfirðinga. Ekki náðist í Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúa álversins í dag til að fá uppgefið hvað stjórnmálaumræðan í gær kostaði.“