24.1.2007 22:01

Miðvikudagur, 24. 01. 07.

Evrópunefnd hélt 38. fund sinn í hádeginu.

Síðdegis svaraði ég þremur spurningum á alþingi. Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, spurði mig um umfang leyniþjónustustarfsemi. Hann var hinn versti yfir svari mínu og sagði, að samkvæmt 54 gr. stjórnarskrárinnar bæri ráðherra skylda til að svara þingmönnum. Ég sagði, að stjórnarskráin skyldaði ráðherra ekki til að svara því, sem hann vissi ekki. Þá heyrði ég ekki betur en Steingrímur J. segði stundarhátt: Djöfulsins! í sæti sínu, áður en hann strunsaði úr þingsalnum.

Næst svaraði ég spurningu Guðjóns Ólafs Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um nýtt fangelsi á Hólmsheiði. Sagði ég unnið að því að undirbúa það en ég vildi, að kannað yrði á skjótan hátt, hvort sameina mætti nýja lögreglustöð og gæsluvarðhaldsfangelsi, ef lóð væri á höfuðborgarsvæðinu undir slíka byggingu, hana mætti auðveldlega reisa í einkaframkvæmd.

Loks svaraði ég spurningu Kolbrúnar Halldórsdóttur um áætlun gegn mansali - ég sagðist ekki hafa sest yfir neina slíka áætlun heldur hefði ég gripið til margvíslegra aðgerða til að koma hér í veg fyrir mansal og uppræta það. Þótt Kolbrún læsi úr dönskum og norskum skýrslum, ætti hið sama ekki við hér á landi frekar en að fara að tillögu hennar um að samþykkja hér sænska vændislöggjöf.

Um klukkan 16.00 var ég á Reykjavíkurflugvelli og tók á móti fjórðu þyrlu landhelgisgæslunnar TF-Eir, sem var að koma frá Bretlandi.