31.1.2007 17:22

Miðvikudagur, 31. 01. 07.

Flaug til Kaupmannahafnar klukkan 08.00, flugtíminn var ekki nema 2.25 klst. vegna meðvinds en rok og rigning er í Kaupmannahöfn, þar sem ég sæki fundi með ráðherrum og fleirum.

Í Staksteinum Morgunblaðsins var því fagnað nú í vikunni, að Danir væru að ræða stöðu dönskunnar og hún yrði til umræðu í þinginu þriðjudaginn 30. janúar. Danska málnefndin hefði vakið athygli á því að frá árinu 2003 hefði enskan rutt sér til rúms sem kennslumál á framhaldsskólastigi. Þá sagði í Staksteinum:

„Tæpast er ástandið orðið svo slæmt á framhaldsskólastigi hér en það veldur áhyggjum hvað kennsla á ensku í háskólum hér hefur breiðst út.“

Og enn segir í Staksteinum:

„Málið er orðið pólitískt. Danski þjóðarflokkurinn (hægri flokkur)hefur tekið dönskuna upp á sína arma og vill beita sér fyrir breytingu á lögum um dönsku og danska málnotkun.....

Það kemur ekki á óvart að flokkur, sem talinn er standa langt til hægri í dönskum stjórnmálum taki þetta mál upp.

Það er stutt á milli þjóðernisstefnu og hreintungustefnu, þótt það eigi ekki að fæla fólk frá stuðningi við eigið tungumál.“

Í Berlingske Tidende er í dag sagt frá þessum umræðum í danska þinginu, sem getið er í Staksteinum og þar er því lýst, að talsmaður Danska þjóðarflokksins hafi verið heldur dapur í bragði, þegar hann fylgdi tillögunni um lög um danska tungu úr hlaði, vegna þess hve lítinn áhuga hún vakti og hve lítils stuðnings hún naut. Þar er meðal annars gert ráð fyrir, að allar opinberar stofnanir skuli bera danskt nafn, ekki megi styrkja danskar kvikmyndir, þar sem töluð er enska, ekki eigi að veita þeim, sem hafa fast aðsetur í Danmörku túlkaaðstoð.

Ellen Trane Nörby, sem talaði fyrir stjórnarflokkinn Venstre, sagði, að það væru ekki allir á einu máli um að setja þyrfti slík lög, þjóðum gæti vegnað vel með tungu sína án slíkrar löggjafar og nefndi hún Ísland til marks um það. Elsebeth Gerner Nielsen, frá radíkölum, sagði þessar tillögur ganga of langt, þjóðarflokksmenn væru að breyta tungunni í sverð (gegn útlendingum). Hún taldi þó, að veita ætti dönskunni skjól með lögum, svo að henni yrði ekki ýtt til hliðar í æðri menntastofnunum.