20.1.2007 22:47

Laugardagur, 20. 01. 07.

Lesbók Morgunblaðsins gerir það ekki endasleppt, því að hún birtir í dag grein eftir dr. Þór Whitehead prófessor um tvískinnung Jóns Ólafssonar, prófessors á Bifröst, í afstöðunni til kommúnista á Íslandi og síðan lýsingu gamalkunnugs kommúnista Maríu Kristjánsdóttur, leiklistargagnrýnanda Morgunblaðsins, á því, hvernig er að vera ferðamaður í Venúzela, þar sem kommúnistinn Hugo Chávez ræður ríkjum, en honum er þannig lýst í fyrirsögn í Economist: With Marx, Lenin and Jesus Christ - Hugo Chávez's "21st-century socialism" starts to look even more like old-fashioned autocracy.

Economist segir, að persónudýrkun sé að aukast í kringum Chávez og hafi hún verið áberandi 8. janúar sl., þegar ný ríkisstjórn sór embættiseið, því að þá hafi það gerst fyrir framan 10 metra háa mynd af Chávez, þar sem hann lyftir höndum eins og blessandi biskup.

Þegar biskupar eða aðrir spyrja, hvað 21. aldar sósíalisminn feli eiginlega í sér, svarar Chávez þeim með þjósti og segir, að þeir skuli bara lesa Biblíuna. „Kristur var sannur kommúnisti, and-heimsvaldasinni og óvinur fámennisstjórnar,“ segir hann og bætir við, að sjálfur hafi hann verið „kommúnisti“ síðan að minnsta kosti 2002 (þá sagðist hann vilja „bæta kapítalismann“). Þessi orð lét hann falla í fyrsta sinn opinberlega fyrir skömmu. Nú lýkur hann ræðum sínum með slagorðum, sem hann hefur lært af Fídel Kastró, en Chávez segist vera í símasambandi við leiðtogann á Kúbu og fyrirmynd sína, sem sé alvarlega veikur.

Ólíklegt er, að mörg blöð fái gamla kommúnista nú um stundir til að skrifa um Venúzela og að þessu leyti er vissulega frumlegt hjá Lesbókinni að kalla eftir þessum greinaflokki frá Maríu. Þröstur Helgason umsjónarmaður Lesbókarinnar birtist í sjónvarpi mbl.is til að kynna blað sitt og gat þar sérstaklega um grein Maríu en sleppti því alveg að minnast á grein Þórs, sem byggir þó á miklu traustari grunni en þessi ferðasaga úr ríki einræðisherrans.