14.12.2010

Þriðjudagur 14. 12. 10.

Sagt var frá því í fréttum sjónvarps klukkan 22.00 að fjárlagagafrumvarpið hefði verið afgreitt til þriðju umræðu á fundi fjárlaganefndar í kvöld eftir að afgreiðslunni hafði verið frestað vegna ágreinings um málið í þingflokki vinstri-grænna, það er flokki Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra. Í fréttunum var sagt að breytingar hefðu verið gerðar á frumvarpinu af meirihluta nefndarinnar.

Oddný G.  Harðardóttir, Samfylkingu, formaður fjárlaganefndar, sagði í hádegisfréttum RÚV að seinkun á afgreiðslu nefndarinnar á frumvarpinu ætti rætur að rekja til sameiningar ráðuneyta. Hún lét þá eins og engu skipti, þótt þingmenn vinstri-grænna vildu efnislegar breytingar án tillits til sameiningar ráðuneyta. Tillögur þeirra yrðu ekki teknar til umræðu í fjárlaganefnd. Sagði hún satt? RÚV hefur ekki skýrt frá því. Orð hennar bentu hins vegar til þess að Samfylkingin ætlaði ekki að stuðla að því að samkomulag tækist í þingflokki fjármálaráðherra.

Uppreisn þingmanna vinstri-grænna snýr einkum að málaflokkum sem falla undir ráðherra Samfylkingarinnar. Enginn hefur hins vegar haft fyrir því að spyrja Guðbjart Hannesson, velferðarráðherra, hvað honum finnist um að þingmenn vinstri-grænna séu að heimta hærri útgjöld á verkefnasviði hans.