12.12.2010

Sunnudagur 12. 12. 10.

Forsætisráðherra Svía hvatti þjóðina til þess í dag að halda ró sinni, þrátt fyrir hryðjuverkið í miðborg Stokkhólms í gær, þegar tvær sprengjur sprungu. Ódæðismaðurinn tíndi lífi í árásinni. Säpo, sænska öryggis- og leyniþjónustan, stjórnar rannsókn málsins. Hún miðlar upplýsingum til sambærilegra stofnana í öðrum löndum. Engin slík stofnun er hér á landi. Á meðan svo er, standa íslensk stjórnvöld verr að vígi en önnur við gæslu öryggis gagnvart hryðjuverkamönnum ekki síður en skipulagðri glæpastarfsemi.

Nýlega lýsti Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, þeirri skoðun að hann tryði því ekki að sendiráðsmenn frá Kína stundi iðnnjósnir hér á landi. Þess vegna þurfi ekki að athuga málið frekar, þrátt fyrir ósk um það frá Kára Stefánssyni hjá Íslenskri erfðagreiningu. Ögmundur er örugglega þeirrar skoðunar, að hér sé ekki hætta á hryðjuverkum eða hér komi þeir sér fyrir sem huga að hryðjuverkum í öðrum löndum.

Menn greinir á um hve mörg ár líði þar til hér þurfi menn að takast á við lögbrot sambærileg þeim sem unnin eru annars staðar á Norðurlöndum.