2.12.2010

Fimmtudagur 02. 12. 10.

Sá fyrsta hluta myndarinnar um Thor Vilhjálmsson á Jakobsveginum. Dáist ég að dugnaði hans á göngunni. Myndin gefur góða hugmynd um andlegt gildi þess að fara þessa ferð og er mun trúverðugri um tilgang þess en ferðasaga sem Jón Björnsson skrifaði um árið. Það mátti helst halda að hann bæri litla virðingu fyrir trúarlegri hlið pílagrímagöngunnar. Jón fór veginn á reiðhjóli ef ég man rétt. Hjólreiðamenn sáust ekki á leið Thors, þar voru hins vegar tveir Frakkar með asna að fornum sið og bar hann trúss þeirra.

Ég skrifaði í dag pistil um evruna og framtíð hennar sem ég byggði meðal annars á vísan til nýrrar skýrslu efti Willem Buiter, sem nú er aðalhagfræðingur hjá Citigroup, en var prófessor þegar hann lét sig málefni íslensku bankanna varða á árunum 2008 og 2009.

Þeir sem fylgjast með því sem ég skrifa á Evrópuvaktina sjá, að ég er gagnrýninn á framgöngu íslensku utanríkisþjónustunnar í samskiptum við ESB. Ég tel að af hálfu þjónustunnar sé allt gert til að túlka mál ESB í hag og síðan haldið fram, að viðræðuramminn sem ESB vill að gildi sé einhliða yfirlýsing og hún bindi ekki ráðuneytið. Gagnrýni formanns viðræðunefndar Íslands á forystu Bændasamtaka Íslands fyrir að hún gæti hagsmuna umbjóðenda sinna á þann veg, sem hún telur skynsamlegt, er með nokkrum ólíkindum. Í tilefni af þessu öllu ritaði ég enn einn leiðarann um málið á Evrópuvaktina í dag og hann má lesa hér.