7.12.2010

Þriðjudagur 07. 12. 10.

Vegna tæknilegra vandræða hef ég ekki skrifað neitt hér á síðuna síðan fimmtudaginn 2. desember.

Hér má sjá samtal mitt við Gunnar Eyjólfsson á ÍNN frá 1. desember. Við ræðum um bókina Alvara leiksins en í henni skráir Árni Bergmann ævisögu Gunnars á listilegan hátt. Í kvöld hittumst við nokkrir qi gong félagar og fögnuðum útgáfu bókarinnar með Gunnari og Árna. Enginn verður vonsvikinn af því að lesa þessa ágætu bók.

Mikill áróður er nú stundaður til að telja okkur trú um að niðurstaða hafi fengist í Icesave-málinu. Mér virðist allt talið um þetta í RÚV sem hefur frá fyrsta degi þessarar ríkisstjórnar unnið með henni til að knýja fram samning um Icesave miði nú að því að sannfæra stjórnendur ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, um að samningur sé að næsta leiti til að losa ESA-forstjórann undan því að herða skrúfurnar til að knýja  íslensk stjórnvöld til að svara ESA. Honum þykir þægilegt að geta skotið sér undan því, þar sem framganga hans gagnvart Íslandi er á þann veg, að væru hér á landi stjórnvöld sem vildu gæta hagsmuna sinna og þjóðarinnar mundu þau krefjast þess að hann viki sæti vegna vanhæfis.

Forstjóri ESA hefur greinilega smitast af hroka ESB-embættismanna í Brussel í garð þeirra þjóða, sem eiga að veita þeim starfsumboð.