10.12.2010

Föstudagur 09. 12. 10.

Við vorum í dag í Listháskóla Íslands þar sem efnt var til hátíðlegrar athafnar í tilefni af því að Erling Blöndal Bengtson, sellóleikari, gaf skólanum nótnasafn sitt sem er mikið af verkum og honum mjög kært. Hann komst svo að orði við athöfnina að þetta líktist því fyrir hljóðfæraleikara að gefa börnin sín. Hjálmar H. Ragnarsson rektor tók á móti gjöfinni en einnig Gunnar Kvaran, sellóleikari, sem lék einleik við athöfnina og einnig með Tríó Reykjavíkur. Minntist Gunnar þess með þökk að hafa verið nemandi og síðar aðstoðarmaður Erlings Blöndals við kennslu í Kaupmannahöfn.

Eftirminnilegust er stutt ræða sem Erling Blöndal flutti. Hann fékk heilabóðfall fyrir nokkrum árum á erfitt með gang og getur ekki lengur leikið á hljóðfæri sitt. Hann sat á stól fyrir framan okkur áheyrendur þegar mælti af munni fram. Hann minntist móður sinnar, Sigríðar Nielsen, og heimabæjar hennar, Ísafjarðar. Einnig rifjaði hann upp þegar hann lék fyrst tónleika ungur maður hér á landi og var að þeim loknum boðið í kvöldverð á Hótel Borg með forystumönnum Tónlistarfélagsins. Ragnar í Smára stóð upp fyrir þeirra hönd og sagði þá hafa ákveðið að gleðja Erling Blöndal með því að bjóða honum í ferðalag - hann sagðist hafa búist við ferð til Þingvalla, en þeir buðu honum tveggja ára námsdvöl í Bandaríkjunum sem skipti sköpum fyrir tónlistarferil hans. Þá gat hann einnig um DVD-disk sem hefði nýlega verið gefinn út um sig og notið hefði stuðnings úr íslenska menntamálaráðuneytinu. Fyrir allt þetta og almennt tengsl sín við Ísland vildi hann þakka með gjöf sinni.