26.12.2010

Sunnudagur 26. 12. 10.

Sunnan undir Skálholtsdómkirkju er legsteinn sem á er letrað nafnið Bodil Begtrup (1903-1987). Bodil var sendiherra Dana á Íslandi 1949 til 1956. Hún varð fyrst kvenna sendiherra í dönsku utanríkisþjónustunni. Eftir dvölina hér á landi gegndi hún störfum á vegum dönsku utanríkisþjónustunnar og var meðal annars sendiherra í Sviss og Portúgal.

Á rás 1 var í dag fluttur þáttur um jólakveðjur í útvarpi og meðal annars frá Íslendingum erlendis. Mátti þar heyra raddir margra þjóðkunnra manna sem lásu kveðjur inn á bönd sem síðan voru flutt í útvarpið til landsmanna.

Daði Hjörvar tók upp kveðjur fólks í París í kringum 1960 en hjá honum voru sendiherrahjónin Marta Thors og Pétur Benediktsson, Thor Thors sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og í Bandaríkjunum, Kristján Albertsson og Bodil Begtrup, en Daði sagði hana nota jólaleyfi sitt til að sinna störfum fyrir danska ráðuneytið með því að sækja fundi hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna í París. Bodil flutti kveðju á íslensku í þættinum hjá Daða.

Ég man eftir Bodil úr æsku minni. Bauð hún meðal annars börnum í jólaboð í hinum glæsilega bústað sínum við Hverfisgötu. Hins vegar mundi ég ekki að hún hefði jafngott vald á íslensku og ég heyrði í þessum skemmtilega útvarpsþætti, sem sýndi enn og sannaði hve margar gamlar minningar er að finna í safni RÚV.

Hér mál lesa um Bodil.