27.12.2010

Mánudagur 27. 12. 10.

Sé krónan ónýt eins og Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir í grein í Fréttablaðinu í dag, þarf að rökstyðja það á betri hátt en hann gerir í grein sinni. Ég ræði grein ráðherrans í pistli sem ég ritaði á Evrópuvaktina og má lesa hérna.

Í fleiri löndum en hér velta menn fyrir sér nýjum gjaldmiðli. Á Spiegel Onlone má í dag lesa langa úttekt á vaxandi gagnrýni á evruna í Þýskalandi eins og sjá má hér.

Í frásögninni frá Þýskalandi er meðal annars sagt frá Frank Schäffler, sambandsþingmanni stjórnarflokksins Frjálsra demókrata, sem velti fyrir sér að stofna teboðshreyfingu gegn evrunni í Þýskalandi. Hann flutti nýlega erindi í Hayek-félaginu í München, þar sem hann lagði á jákvæðan hátt út af kenningu Friedrichs von Hayeks um að ríki ættu að leyfa ólíkum gjaldmiðlum að dafna inna hagkerfis síns, sá mundi sigra, sem félli fólki best í geð í samkeppni miðlanna.

Það er dæmigert fyrir skort á skilningi á því sem er að gerast innan ESB og á evru-svæðinu sérstaklega, að þá skuli Árni Páll Árnason sitja við að rita grein um gjaldmiðilsmál Íslendinga og leggja höfuðáherslu á evruna, án þess að víkja einu orði að áhyggjum um framtíð hennar.