24.12.2010

María mey


María mey, heitkona Jósefs, varð þunguð af heilögum anda og fæddi soninn Jesú.  Í tilefni fæðingarinnar höldum við jól. María er óaðskiljanleg frá hátíðinni.

María er tákn fyrir trúfesti og tryggð. María sinnir einnig meðalgöngu milli syndugs mannkyns og Guðs. Samkvæmt Jóhannesarguðspjalli var hún við krossfestingu Krists. Eftir krossfestinguna sat María um kyrrt í Jerúsalem og þar er gröf hennar að finna. Hún steig upp til himna og er himnaför Maríu minnst á hátíðlegan hátt hinn 15. ágúst.

María mey er höfð í hávegum innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Um heim allan eru kirkjur helgaðar henni og margir mest sóttu pílagrímastaðir kristinna manna tengjast nafni hennar. Kaþólski söfnuðurinn á Íslandi á Maríukirkju í Breiðholti í Reykjavík. Hún var tekin í notkun 25. mars 1985 á boðunardegi Maríu en ekki vígð fyrr en 24. maí 2001.

Eftir siðaskipti var gengið misjafnlega hart fram við að kæfa bænargjörð til Maríu í kirkjum mótmælenda. Í sumum mótmælendasöfnuðum er haldið svo fast á málum að jafnvel er bannað að syngja Maríu lof í kirkjum þeirra.

Hér á landi er María í heiðri höfð jafnt af kaþólskum og mótmælendum, þótt rækt sé lögð við bænir til heilgrar Maríu meðal kaþólskra en ekki í þjóðkirkjunni. Í Lúterskum kirkjum hér eru Maríustúkur og má þar nefna dómkirkjuna í Skálholti, stúkan vinstra megin við altarið er helguð Maríu. Í Háteigskirkju í Reykjavík er Maríustúka, hægra megin við altarið, þar er mósaik mynd af Maríu með barnið eftir Benedikt Gunnarsson. Vinstra megin við altarið í Hallgrímskirkju er stúka með mynd af Maríu með barnið eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal.

Ég hef átt þess kost að heimsækja þrjá staði pílagrímastaði í Evrópu sem snúast um átrúnað á heilaga Maríu: Þeir eru Czestochowa í Póllandi, Lourdes í Frakklandi og Fatíma í Portúgal.

Hinn 15. júlí 1998 skrifaði ég í dagbókina hér á síðunni:

„Fórum meðal annars um litla fjallalandið Andorra, þá heimsóttum við pílagrímabæinn Lourdes í Frakklandi. Þar gerðist það frá febrúar fram í júlí 1858, að fjórtán ára stúlka, Bernadette, sá heilaga guðsmóður, Maríu mey, átján sinnum. Nú koma rúmlega fimm milljónir manna árlega, einkum á tímanum frá páskum fram að allra heilagra messu, 1. nóvember, til Lourdes Lourdes-pilagrimarsem pílagrímar. [Sjá pílagríma á mynd hér til hægri.] Margir eru mjög veikir og leita sér lækninga, aðrir óska eftir að komast á þennan helga stað fyrir dauða sinn og svo eru hinir, sem vilja efla trú sína með þátttöku í bænahaldi og trúarathöfnum. Er María mey i Jasna Goraógleymanleg reynsla að heimsækja Lourdes og fá örlitla tilfinningu fyrir því heita trúarlífi, sem þar ríkir. Fyrir nokkrum árum fórum við til helsta pílagrímastaðar Pólverja í Jasna Gora [Czestochowa], þar sem er mynd af hinni svörtu Madonnu, drottningu Póllands og verndara gegn óvinum lands og þjóðar. Þar var allt annars konar andrúmsloft en í Lourdes, þangað sem menn koma einkum til að leita sér lækninga og sáluhjálpar. Til Jasna Gora streymdu Pólverjar til að staðfesta ættjarðarást sína og trú.“

Myndin hér til hægri sýnir hina svörtu Madonnu með barnið. Sagan segir að Lúkas guðspjallamaður hafi átt myndina og hún sé máluð á eldhúsborð hinnar heilögu fjölskyldu.

Í pistli frá 20. mars 2000 segi ég:

„Ráðstefnunni [ráðherrafundi um menntamál í Lissabon] lauk upp úr hádegi laugardaginn 18. mars og þá gafst tími til þess að aka til bæjarins Fatima, sem er um 150 km fyrir norðan Lissabon, en þar gerðust þau undur árið 1917, að þrír ungir fjárhirðar Fatimasáu Maríu guðsmóður birtast nokkrum sinnum, hið fyrsta sinn 13. maí 1917 og síðan á mánaðarfresti og síðast 13. október 1917. Tvö barnanna dóu ung [í spönsku veikinni 1918] en hið þriðja, Systir María Lucia, er enn á lífi og býr hún í Karmel-klaustri í Portúgal 93 ára að aldri. Jóhannes Páll páfi II ætlar að heimsækja Fatima 13. maí næstkomandi, en í kringum staðinn, þar sem börnin sáu heilaga guðsmóður hefur nú skapast góð aðstaða fyrir pílagríma, sem koma langt að til að njóta blessunar staðarins. Hafði það yfir sér sérstakan blæ að fara þarna um og kynna sér lítillega sögu atburðanna, sem þarna gerðust.“

Hinn 15. janúar 2005 sagði ég hér á síðunni:

„[E]r þess vandlega gætt, að ekki séu hafðar neinar yfirlýsingar eftir Luciu opinberlega, orð hennar vega þungt, því að eftir atburðinn í fyrri heimsstyrjöldinni árið 1917 býr hún yfir „þriðja leyndarmálinu frá Fatíma“ . Þau Jacinta og Francisco, leikfélagar Luciu, eru látin, eins og áður sagði, en María mey sagði börnunum þrjá spádóma: Ef maðurinn mundi ekki hætta að ögra Guði mundi annað stórstríð hefjast á tímum Píusar páfa XI. Tuttugu tveimur árum síðar hófst stríðið. Í öðru lagi var börnunum sagt, að Rússland myndi leiða hörmungar yfir heiminn. Spásögnin var mælt fyrir rússnesku byltinguna og  áður en Sovétríkin komu til sögunnar og hún laut að sovésku trúleysi.

María sagði börnunum einnig hið svonefnda þriðja leyndarmál, sem átti að kynna páfanum, sem sæti árið 1960 og síðan birt. Jóhannesi páfa XXIII. var sagt frá leyndarmálinu en ákvað, að það yrði ekki gert opinbert. Jóhannes Páll páfi II. skýrði frá leyndarmálinu í júní 2000. Það var stutt en varaði við þrengingum í heiminum, ofsóknum á hendur katólsku kirkjunni og skotárás á páfann.

Ýmsir telja, að árásin á páfann í maí 1981 sé til marks um, að síðasti spádómurinn hafi ræst. Aðrir eru þessu ósammála. Síðan eru þeir, sem efast um, að skýrt hafi verið frá öllu þriðja leyndarmálinu.“

Systir María Lucia andaðist 13. ferbúar 2005 97 ára gömul. Eftir andlát hennar ákváð Jósef Ratzinger, þá kardínáli í Páfagarði, nú Benedikt XVI páfi, að klausturklefi hennar skyldi innsiglaður. Talið er að ástæðan hafi verið sú að sr. Lucia hafði orðið fyrir fleiri vitrunum og afla þurfti vitnisburðar vegna áforma um að hún yrði tekin í helgra manna tölu.

Hér skal þessi saga ekki rakin lengra en all kom þetta í huga minn, þegar ég fletti snotri bók sem bókafélagið Ugla gaf út fyrir jólin. Hún er eftir Gunnar Dal og heitir Leyndardómur Maríu. Þar birtist safn sagna sem Gunnar hefur tekið saman um Maríusýnir í Lourdes, Fatíma, Beauring í Belgíu, þar sem María sást 29. nóvember 1932 og Medjugorje í Bosníu- Hersegovínu, þar sem María sást 24. júní 1981.

Gunnar segir í formála bókarinnar að á 20. öld hafi orðið til Maríusögur á 386 mismunandi stöðum. Um sýnirnar hefur verið gerð skýrsla og birtir Gunnar hana í lok bókar sinnar. Formálanum lýkur Gunnar á þessum orðum:

„Það líður mörgum illa í þessum harða heimi. Milljónir karla og kvenna hafa brugðist við neyðarkalli tímans með því að taka þátt í starfi Maríu og verða þannig vegna verka sinna hluti af ljósvef hennar sem nær um allan heim.“

Jesús Kristur verður aldrei skilinn frá Maríu, móðurmynd hennar er aldrei skýrari en á jólum. Með því að hugleiða í ljósi hennar verðum við umvafin birtu og yl móðurhjartans. Ef við skynjum þann kraft nálgumst við leyndardóm Maríu.

Gunnar Dal á þakkir skildar fyrir að taka saman sögur um þennan leyndardóm og miðla þeim til samtíðarmanna sinna á þennan einfalda og fallega hátt.