18.12.2010

Laugardagur 18. 12. 10.

Í dag birtir Fréttablaðið niðurstöður skoðanakönnunar sem MMR gerði 7. til 9. desember sem sýnir 40,4% stuðning við Sjálfstæðisflokkinn en 37,1% stuðning samtals við stjórnarflokkana, Samfylkingu og VG.

Í sömu könnun kemur fram að 46,7% treysta Sjálfstæðisflokknum best til að endurreisa atvinnulífið en aðeins 7,3% vinstri grænum en þeir eiga síðasta orðið í atvinnumálum innan ríkisstjórnarinnar eins og dæmin sanna.

Könnunin var gerð áður en fjárlög næsta árs voru samþykkt en samkvæmt þeim hækka skattar á fyrirtæki. Þar með er enn dreginn máttur úr þeim og grafið undan hagvexti sem leiðir til minni tekna af skattheimtu. Hækkun á tryggingargjaldi, það er gjaldi sem ríkið innheimtir af öllum atvinnurekendum og er hlutfall af launagreiðslu þeirra, hvetur til uppsagna á starfsfólki og ýtir þar með undir atvinnuleysi.