24.12.2010

Gleðileg jól! Föstudagur 24. 12. 10.

Í pistli sem ég skrifaði í dag í tilefni jólanna og helgaði Maríu mey segi ég frá nýrri bók Leyndardómi Maríu eftir Gunnar Dal sem bókaélagið Ugla gaf út fyrir skömmu. Þar er sagt frá Maríusýnum og stöðum tengdum þeim. Í The New York Times í dag er sagt frá því að lítil kapella í sveitabyggð í Champion í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum, sem ber enska heitið Our Lady of Good Help, hafi 8. desember sl. hlotið viðurkenningu rómsversk-kaþólsku kirkjunnar sem helgistaður vegna Maríusýnar. Hefur enginn staður í Bandaríkjum áður hlotið slíka viðurkenningu.

Adele Brise, innflytjandi frá Belgíu, sagðist árið 1859 hafa séð heilaga Maríu birtast þrisvar sinnum í björtu ljósi á milli tveggja trjáa, hún var í ljómandi hvítum kjól með gulu mittisbandi og með stjörnukórónu á gylltum flökktandi lokkum. Brise helgaði líf sitt upp frá því barnafræðslu í kaþólskri trú eins og fyrir hana var lagt.

Guðfræðingar birtu viðurkenningu á helgi staðarins hinn 8. desember 2010. Þeir höfðu kynnt sér frásagnir um trúarlega vitrun, lækningar og guðlega forsjón sem tengdist sýnarstaðnum. Fundu þeir engin dæmi um svik eða villutrú. Frá því að kaþólska kirkjan veitti viðurkenningu sína hefur ferðum pílagríma til Champion fjölgað.

Árið 1871 urðu miklir skógareldar í héraðinu og 1.200 manns týndu lífi. Þeir sem söfnuðust saman á þeim stað þar sem María birtist björguðust.

Gleðileg jól!