8.12.2010

Miðvikudagur 08. 12. 10.

Klukkan 16.00 var ég á útvarpi Sögu og ræddi við þau Arnþrúði Karlsdóttur og Pétur Gunnlaugsson, einkum um Icesave og ESB-málefni.

Í dag hafa íslenskir netmiðlar sagt frá bandarísku WikiLeaksskjali frá 2006 þar sem kemur fram það mat sendiráðsstarfmanna Bandaríkjanna hér á landi að mig hafi skort pólitískan vilja til að takast á við mögulegt mansal, ég hafi gert lítið úr vandanum og talað niður möguleikann á því að áhættuhópar, svo sem farandverkamenn og starfsfólk í kynlífsiðnaði, sé misnotað af vinnuveitendum sínum hér á landi. Þessi vitleysa úr bandaríska sendiráðinu hér á landi er ekki ný af nálinni. hún var til umræðu hér á landi sumarið 2006 en þá skrifaði ég hér í dagbókina, þjóðhátíðardag Bandaríkjanna 4. júlí:

Ég sagði í viðtali við Fréttablaðið, sem bar ummæli í skýrslu bandaríska sendiráðsins undir mig, en þar er meðal annars lagt mat á skoðun mína á mansali, að enginn frá sendiráðinu hefði rætt þessi mál við mig og ég skildi ekki hvernig unnt væri að álykta á þann veg um afstöðu mína og gert væri í skýrslunni. Ég hef ekki lesið skýrsluna og mér heyrðist á fréttum sjónvarpsins í kvöld, að ég þyrfti að minnsta kosti ekki að gera það, til að fræðast neitt um verkaskiptingu á þessu sviði innan stjórnarráðsins. Ég hef lagt á það áherslu, að lögreglan fái sem best tæki og heimildir til að takast á við mansal og annað, sem tengist skipulagðri glæpastarfsemi. Þar skiptir greining og mat á áhættu miklu.“

Í tilefni af því að nú er enn vitnað í þessar rangfærslur bandaríska sendiráðsins frá 2006 snýr vefsíðan Pressan sér til Margrétar Steinarsdóttur, framkvæmastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands, sem áður var lögfræðingur Alþjóðahúss. Af frásögn hennar má ráða, að hún hafi verið heimildarmaður bandaríska sendiráðsins, en hún hafi rætt við þá í trúnaði. Margrét segir á Pressunni 8. desember:

„Maður gaf upplýsingar í trúnaði í því skyni að knýja á um að stjórnvöld viðurkenndu vandann, en stjórnvöld höfðu alltaf talað um Ísland sem gegnumstreymislands í mansalsmálum en ekki sem áfangastað mansals.“

Af þessum orðum verður ekki annað ráðið en fyrir Margréti hafi vakað að nota bandaríska sendiráðið með leynd til að flytja gagnrýni á íslensk stjórnvöld. Sendiráðsmenn hefðu hins vegar vísað til lögfræðings Alþjóðahúss í skýrslu sinni, hún hefði ekki gefið sendiráðinu upplýsingar síðan. Við Pressuna segir Margrét að auk þess að rjúfa trúnað hafi bandarísku sendiráðsmennirnir ekki haft rétt eftir henni í skýrslunni árið 2006.

Sérkennilegt er að sjá hvernig þrýstihópar töldu sig geta notað bandaríska sendiráðið málstað sínum til framdráttar. Árni Finnsson fór þangað til að knýja Bandaríkjastjórn til að mótmæla hvalveiðum Íslendinga. Lögfræðingur Alþjóðahúss notaði sendiráðsmenn til að ófrægja íslensk stjórnvöld í mansalsmálum. Allt er þetta hlutaðeigandi og sendiráðinu til minnkunar.