1.12.2010

Miðvikudagur 01. 12. 10.

Í dag ræddi ég við Gunnar Eyjólfsson, leikara, í þætti mínum á ÍNN en hann má sjá á tveggja tíma fresti næsta sólarhringinn t.d. kl. 22.00 í kvöld. Við tölum saman um ævisögu Gunnars, sem Árni Bergmann hefur skrifað. Frásagnarhæfileiki Gunnars er einstæður eins og sést og heyrist í viðtalinu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir bar af Jóni Gnarr í samtali þeirra í Kastljósi kvöldsins. Eina kosningaloforðið sem Jón Gnarr ætlar að efna er að svíkja öll kosningaloforð. Sjálfumgleði Jóns var hin sama og áður. Hann tönnlast enn á því að Besti flokkurinn sé einsdæmi á heimsvísu sem sé mikið afrek.

Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, hóf umræður um að frá árinu 2007 hefðu fjárframlög til lögreglunnar verið skorin niður um 380 milljónir króna. Þegar þessi orð ráðherrans eru skoðuð er rétt að hafa eftirfarandi staðreynd í huga:

Á árinu 2007 námu heildarútgjöld til löggæslu ríflega 7 milljörðum króna, samanborið við rúmlega 5,4 milljarða árið 2004. Mest var aukning í útgjöldum til löggæslu milli áranna 2006 og 2007 eða úr 6,5 milljörðum í 7,2 milljarða króna. Á árinu 2008 námu heildarútgjöld til löggæslu ríflega 7,8 milljörðum króna.

Mér er hulin ráðgáta hvaða Ögmundur hefur tölur sínar um niðurskurð til löggæslu. Tölurnar sem ég birti hér eru í opinberum skýrslum frá dómsmálaráðuneytinu og embætti ríkislögreglustjóra.

Tveir nemendur við háskólann á Bifröst: Felix Rafn Felixson og Hrafn Hjaltason rita grein í Fréttablaðið í dag, þar sem þeir byggja á þessum tölum Ögmundar.