11.12.2010

Laugardagur 11. 12. 09.

Einkennilegt er að ekki skuli meira fjallað um makrílveiðar árið 2011 í fjölmiðlum, þegar til þess er litið að deila Íslendinga og Færeyinga um veiðarnar heldur áfram við ESB og Norðmenn. Skotar heimta af meiri þunga en áður að ESB beiti sér gegn Íslendingum, ég fjallaði um málið í leiðara á Evrópuvaktinni í dag.

Að ráðherra hafi orðið vís að sambærilegum dómgreindarbresti og ósannindum og Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon og samt látið eins og ekkert sé eðlilegra en sitji áfram í embætti er í raun óhugsandi. Ráðherrar í þingræðislandi eiga sitt undir stuðningi þingmanna, þau Jóhanna og Steingrímur J. sitja í umboði þingmanna Samfylkingar og vinstri-grænna. Láti þeir við svo búið sitja leggja þeir blessun sína yfir brestina í embættisfærslu ráðherranna.

Þau Jóhanna og Steingrímur J. þröngvuðu stuðningsmönnum sínum á þingi tvisvar sinnum til að styðja Icesave-samninga sína. Nú ætla þau að gera það í þriðja sinn. Láta þingmennirnir undan kröfunum enn á ný eða sýna þeir formönnum sínum vantraustið sem þeir eiga skilið vegna framgöngu sinnar?