15.12.2010

Miðvikudagur 15.12.10.

Í dag hitti ég Þór Whitehead og tók við hann viðtal í þátt minn á ÍNN um nýja, stórmerka bók hans Sovét Ísland óskalandið um byltinguna sem aldrei varð hér á landi. Þór hefur kannað nýjar heimildir og tekur af skarið um að líta beri á drengsmálið svonefnda undir forystu Ólafs Friðrikssonar árið 1921 og Gúttóslagina fjóra um 1930 fram til 9. nóvember 1932 sem lið í byltingarstarfi kommúnista.

Má segja að tímabært sé eftir allt sem um þessi mál hefur verið sagt að hið sanna eðli þeirra birtist. Enginn lesandi bókar Þórs getur efast um að hún sé rituð í samræmi við ströngustu kröfur sagnfræðinnar og ekki meira fullyrt en styðja má með öruggum heimildum.

Í bókinni færir Þór skýr rök fyrir því að Jón Ólafsson, prófessor, sem hefur skrifað um tengsl kommúnista á Íslandi við Moskvuvaldið hafi ekki dregið réttar ályktanir af gögnum, sem hann þó hafði undir höndum. Guðni Th. Jóhannesson ritaði síðan bókina Óvinir ríkisins þar sem hann byggist frásögn sína á bók Jóns. Hvorugur þeirra virðist átta sig á hinu sanna eðli Kommúnistaflokks Íslands og arftaka eða ekki vilja horfast í augu við það sem heimildir segja um eðli flokksins, baráttuaðferðir hans og markmið.

Bók Þórs snýst um þrjú meginstef: kommúnista og flokk þeirra, löggæslu og almenna stjórnmálaþróun á árunum 1920 til 1946. Athyglisverður er hlutur þeirra Hermanns Jónassonar og Ólafs Thors þegar þeir standa frammi fyrir pólitískum tækifærum sem skapast vegna starfsemi kommúnista hvort heldur hún lýtur að ofbeldi eða hefðbundnu stjórnmálastarfi.

Bók Þórs er ómetanleg heimild fyrir alla sem vilja kynna sér stjórnmálasögu 20. aldarinnar og aðdraganda hinna miklu átaka um utanríkis- og öryggismál sem settu svip sinn á stjórnmálaátök á árum kalda stríðsins.