9.12.2010

Fimmtudagur 09. 12. 10.

Varðberg – samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál heitir félag sem stofnað var á fjölmennum fundi á Hótel Sögu klukkan 17.30 í dag. Með félaginu renna tvö félög: Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg saman í eitt.

Tilgangur Varðbergs er:

1.     Að beita sér fyrir umræðum og kynningu á alþjóðamálum, einkum þeim þáttum þeirra sem snúa að öryggis- og varnarmálum á norðurhveli jarðar.

2.     Að efla skilning á gildi lýðræðislegra stjórnarhátta.

3.     Að vinna að kynningu á samstarfi og menningu þjóða, sérstaklega störfum og stefnu Atlantshafsbandalagsins.

4.     Að hafa samstarf við hliðstæð félög erlendis, eftir nánari ákvörðun stjórnar samtakanna.

Tilgangi sínum hyggst Varðberg ná:

1.     Með fundum, málstofum og ráðstefnum með innlendum og erlendum fyrirlestrum.

2.     Með samvinnu við háskóla og menntaskóla, rannsóknastofnanir, félög og hugveitur innan lands og utan.

3.     Með þátttöku í Atlantic Treaty Association og Young Atlantic Treaty Association.

4.     Með útgáfustarfi.

Á stofnfundinum  flutti Tryggvi Hjaltason, öryggis- og greiningafræðingur, erindi  um leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Lissabon 19. og 20. nóvember og nýja grunnstefnu bandalagsins í öryggismálum. Stefán Einar Stefánsson var fundarstjóri og Þórunn J. Hafstein, fundarritari.

Stjórn Varðbergs til næstu tveggja ára skipa:

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, formaður.

Eiður Guðnason, fyrrverandi sendiherra og ráðherra.

Gísli Freyr Valdórsson, blaðamaður.

Kjartan Gunnarsson lögfræðingur.

Margrét Cela, doktorsnemi í alþjóðasamskiptum, formaður NEXUS, rannsóknarvettvangs fyrir öryggis- og varnarmál.

Tryggvi Hjaltason, öryggis- og greiningafræðingur.

Þuríður Jónsdóttir, lögfræðingur