17.12.2010

Föstudagur 17. 12. 10.

Helgi Seljan var eins og ákærandi fyrir hönd Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, þegar hann ræddi við Lilju Mósesdóttur, þingmann vinstri-grænna í Kastljósi kvöldsins. Engu er líkara en fréttastofa RÚV líti á þrjá þingmenn vinstri-grænna sem tóku afstöðu til fjárlagafrumvarpsins í samræmi við sannfæringu sína sem pólitíska óbótamenn. Áður en Helgi saumaði að Lilju (án árangurs) hafði Gunnar Gunnarsson í Speglinum tekið að sér að yfirheyra Atla Gíslason. Gaf Gunnar til kynna að Atli hefði setið hjá við atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið af því að hann hefði ekki orðið ráðherra í haust.

Nú hefur hollenska þingið samþykkt að Íslendingar fari ekki í ESB án þess að hætta hvalveiðum. Þýskir þingmenn ályktuðu á sama veg fyrr á árinu. ESB-þingmenn settu bann við hvalveiðum einnig sem skilyrði fyrir aðild Íslands að ESB. Þrátt fyrir þetta láta þeir sem stjórna pólitískri för Íslands inn í ESB, Össur Skarphéðinsson og Árni Þór Sigurðsson, eins og þetta skilyrði skipti engu máli, það megi tala sig frá þessum skilyrðum. Hvernig það verði gert er með öllu óljóst, því að auðvitað er ekki unnt að sameina stefnu Íslendinga og þingmanna í ESB-ríkjunum í þessu efni. Ísland verður ekki aðili að ESB nema þjóðþing ESB-ríkjanna samþykki það.