30.12.2010

Fimmtudagur 30. 12. 10.

Í dag birtist frétt í Morgunblaðinu um að líklega hækkuðu skattar á Icelandair um einn milljarð á árinu 2011 vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar og flokka hennar á þingi. Þá var einnig sagt frá því í morgun að verkmenntun hyrfi úr landinu vegna samdráttar á öllum sviðum. Eins og ég sagði hér frá í gær er fjárfesting nú í sögulegu lágmarki.

Viðskiptablaðið tilnefndi Rannveigu Rist, forstjóra álversins í Straumsvík, viðskiptamann ársins. Hún er fulltrúi atvinnugreinar sem er hættuleg Íslendingum að mati ríkisstjórnar Jóhönnu en hún leggur stein í götu allra framkvæmda við stóriðju.

Hið ótrúlega er, að ríkisstjórnin þorir ekki að stíga út úr gjaldeyrishaftakerfinu. Árni Páll, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir það ekki verða gert nema með upptöku evru og þar með aðild að ESB. Með þeim afarkostum lýsir hann algjörri uppgjöf við frjálshuga efnahagsstjórn. Miklu fleiri vara við hættunni af því að halda áfram haftastefnunni en mæla með upptöku evru. Ríkisstjórnin hlustar ekki á þau sjónarmið frekar en önnur.

Í uppgjöri viðskiptablaðamanna vegna ársins 2010 er samdóma álit að mesta klúður ársins hafi verið tilraun ríkisins og seðlabankans til að selja Sjóvá. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, rak smiðshöggið á þá hörmungasögu með geðþóttatúlkun á gjaldeyrishaftareglunum.

Hið sama gerist nú og áður á tímum gjaldeyrishafta að allra leiða er leitað til að komast í kringum þau. Bók Jakobs F. Ásgeirssonar Þjóð í hafti er leiðbeiningarit um það sem er í vændum. Einkennilegt er að þeir hrópa nú mest um spillingu á fyrri tíma haftaárum sem helst styðja þá ríkisstjórn sem telur skjól haftanna sér til bjargar.