13.12.2010

Mánudagur 13. 12. 10.

Stjórnarandstaðan ætlar að sjálfsögðu ekki að standa að flutningi lagafrumvarps um Icesave 3:0 með ríkisstjórninni. Spurning er hvort þau Jóhanna og Steingrímur J. fá óskoraðan stuðning eigin þingflokka til að flytja slíkt frumvarp. Frumvarp um Icesave 1:0 var afgreitt umræðulaust í Samfylkingunni á sínum tíma. Ástæða er til að efast um að hið sama gerist nú, nema ábyrgðarleysi þingmanna Samfylkingarinnar sé algjört. Ögmundur Jónasson segist ætla að styðja Icesave 3:0 og telur að Ólafur Ragnar Grímsson geri það líka. Rökin eru þau að ekki sé unnt að ná betri niðurstöðu. Þetta eru sömu rök og notuð voru um Icesave 1:0 og 2:0, hvort þau virka á alla þingmenn vinstri-grænna kemur í ljós. Hitt er síðan annað mál, hvernig nokkrum þingmanni kemur til hugar að treysta orðum Jóhönnu eða Steingríms J. um Icesave úr því sem komið er - að þau víki ætti að verða eitt af skilyrðunum við afgreiðslu málsins.

Ég hef lýst þessari skoðun áður. Ekkert traust er unnt að bera til Jóhönnu og Steingríms J. í Icesave-málinu. Að þetta sé sagt hleypur fyrir brjóstið á mörgum, þeirra á meðal Gísla Baldvinssyni samfylkingar-bloggara á Akureyri. Hann segir af þessu tilefni á síðu sinni 13. desember:

„Honum [Birni Bjarnasyni] var sætt í sinni ráðherratíð og aldrei kom til álita að hann stæði upp úr stólnum. Jafnvel Falum gong málið hreyfði ekki við honum.
Þess vegna fékk hann viðurnefnið Sitting Bear.“

Þetta sýnishorn af málsvörn fyrir Jóhönnu og Steingrím J. í Icesave-málinu er hrópandi dæmi um málefnaskortinn. Líklega á þetta að vera fyndið. Hið grátbroslega er að ég sat ekki í ríkisstjórn í sumarbyrjun árið 2002 þegar kínverski forsetinn kom hingað til lands og gripið var til þess ráðs að takmarka ferðir falun gong iðkenda til landsins í öryggisskyni, enda minnist ég þess ekki að hafa fengið neitt viðurnefni sem ráðherra í tilefni af falun gong. Er bulli stjórnarliða engin takmörk sett?