28.12.2010

Þriðjudagur 28. 12. 10.

Þeir sem reikna með því að ríkisstjórnin sé að springa hafa ekki tekið skapgerð Jóhönnu Sigurðardóttur með í reikninginn. Þegar hún tapaði í formannskosningum gegn Jóni Baldvini Hannibalssyni hrópaði hún, að sinn tími mundi koma. Síðan stofnaði hún nýjan flokk til að skapa sér valdastöðu vinstra megin við miðjuna. Þegar þörf var á á leiðtoga til að leiða „tæra“ vinstri stjórn settist Jóhanna í stól forsætisráðherra, af því að talið var að hún yrði þar til friðs. Jóhanna skynjar ekki pólitískt umhverfi sitt á þann veg að hennar verkefni sé að leita sameiginlegra lausna með öðrum. Hún vill hafa sitt fram á einn hátt eða annan. Ríkisstjórnin situr undir forsæti hennar þar til þingflokkur Samfylkingarinnar tekur af skarið um að hún verði að víkja. Þá klofnar þingflokkur Samfylkingarinnar með hærri hvelli en klofningur vinstri-grænna.

Fyrsta atlaga spunaliða stjórnarflokkanna til að beina athygli frá vandræðum á stjórnarheimilinu er að hefja umræður um að Framsóknarflokkurinn taki að sér að styrkja ríkisstjórnina. Það mundi falla Samfylkingunni vel að fá nokkra ESB-sinnaða þingmenn Framsóknarflokksins til stuðnings við stjórnina og kljúfa á þann hátt þingflokk framsóknarmanna.