Fimmtudagur 6.1.2000
Klukkan 13.30 var ég í nýjum og glæsilegum húsakynnum Bifreiða- og landbúnaðarvéla að Grjóthálsi 1 og tók á móti 6 Hyundai-bifreiðum, sem Gísli Guðmundsson forstjóri afhenti Fræðslumiðstöð bíliðngreina (FMB), en hún er í Borgarholtsskólanum og hluti hans. Er einstakt, að eitt fyrirtæki styðji skólastarf með þessum hætti, en mörg bílgreinafyrirtæki hafa lagt sig fram um að búa FMB sem best tækjum. Klukkan 16.00 var ég í Flensborgarskóla, þar sem nýtt tölvu- og upplýsingatæknikerfi var tekið í notkun en það er að meginstofni gjöf frá eldri nemendum. Færir þessi mikli tækjakostur og tenging hans við netið Flensborg í fremstu röð framhaldsskóla á þessu sviði.