11.11.2005 10:14

Föstudagur 11. 11. 05.

Fór í heimsókn í einkaskjalasafn Churchills og hafði vörðurinn tekið fram myndaalbúm, sem sýndi Churchill í Reykjavík. Þar var einnig að finna bréf frá honum og til hans, sem snertu Ísland. Einnig var á borði úrklippa úr Morgunblaðinu með viðtali við Sir Andrew Gilchrist, sem var sendiherra Breta á Íslandi í þorskastríðinu 1958, en hann h ánafnaði Churchill College einkaskjalasafni sínu. Gilchrist var góðvinur föður míns og ég þekkti hann vel, heimsótti ég hann einu sinni á heimili hans í Skotlandi, eftir að hann var kominn á eftirlaun.

Fyrir fáeinum árum ákvað Margaret Thatcher, að einkaskjalasafn sitt skyldi varðveitt í Churchill College og hefur nú verið reist nýtt stórt skjalageymsluhús við hlið hússins, sem geymir Churchill-skjölin, þar sem Thatcher-skjölin eru geymd og fengum við að skoða þá aðstöðu og nokkur skjalanna, en allt er þetta ótrúlega mikið að vöxtum.

Skjalavörðuinn sagði áhugann á Churchill-skjölunum mikinn og hið sama væri um Thatcher-skjölin en um mörg þeirra gilti 30 ára regla, svo að þau yrðu ekki almennt opnuð fyrr en eftir 30 ára geymslu. Charles Moore, fyrrverandi ritstjóri The Spectator, er ævisöguhöfundur Thatcher tilnefndur af henni og sagði skjalavörðurinn, að hann hefði sérstakan aðgang að skjölunum.

Þarna er fleiri einkaskjöl breskra stjórnmálamanna og embættismanna og einstaklega góð aðstaða bæði til að geyma þau og sinna rannsóknum.

Ég hafði aldrei komið til Cambridge áður og gekk frá Churhill College í um 20 mínútur þar til komið var inn í gamla bæinn um stóra garða Trinity College. Í bænum skoðuðum við fagrar háskólabyggingar á leið til Peterhouse College, sem er hinn elsti í háskólanum og er frá miðri 14. öld. Á leiðinni gengum við framjá galleríi, þar sem sjá mátti málverk og vatnslitamyndir eftir Karólínu Lárusdóttur, sem er búsett í eða við Cambridge. Þar var einnig unnt að kaupa póstkort með myndum eftir hana.

Í Peterhouse College hittum  við dr. Brendan Simms prófessor í alþjóðastjórnmáum. Þaðan fórum við síðan í alþjóðastjórnmálafræðimiðstöð háskólans, þar sem efnt var til málþings undir stjórn Christophers Hills prófessors og ég ræddi um þróun íslenskra öryggismála og afstöðu Íslands til Evrópusambandsins og svaraði síðan fyrirspurnum. (Christopher Hill sagði mér, að hann hefði verið prófessor Alberts Jónssonar sendiherra, þegar hann stundaði nám við London School of Economics.)

 

Við svo búið hélt ég aftur til London.