10.11.2005 9:59

Fimmtudagur, 10. 11. 05.

Ók til Cambridge síðdegis frá London. Í Churchill College hitti ég Rasmus Gjedssö Bertelsen, doktorsnema við Cambridge-háskóla og ritstjóra tímaritsins Cambridge Review of International Affairs, hann hafði beðið mig um að taka þátt í umræðufundi á vegum The Phoenix Society um lífkenni eða biometrics. Fundurinn var haldinn klukkan 18.00 í sal í ráðstefnumiðstöð, Möller Centre, sem Maersk Mc-Kinney Möller gaf Churchill College og var miðstöðin opnuð 1992, en hún er teiknuð af Henning Larsen, sem síðan teiknaði óperuna í Kaupmannahöfn, en hún er einnig gjöf frá  Maersk Mc-Kinney Möller auk þess sem mun Larsen teikna tónlistarhúsið og ráðstefnumiðstöðina í Reykjavík. Auk mín töluðu þarna prófessor frá Cambridge, sem er sérfræðingur í lithimnugreiningum og notkun lithimnumynda og mannfræðiprófessor frá London. Að loknum ræðum okkar voru fyrirspurnir.

Við snæddum kvöldverð í matsal Churchill College og þar lýkur öllum kvöldverðum með því að risið er á fætur og einhver hrópar Sir Winston og viðstaddir skála fyrir Sir Winston Churchill, en hann sá fyrir sér stofnun þessa College á sjötta áratugnum og þarna eru einkaskjöl Churchills, Clementine og barna þeirra hýst.