17.11.2005 21:18

Fimmtudagur, 17. 11. 05.

Ríkissjónvarpið ræddi í kvöldfréttum við Helga Hjörvar alþingismann vegna bréfs, sem ég hafði sent honum, en reyndi ekki að ná í mig. Auk þess var lagt þannig út af bréfi mínu eins og ég hefði gefið einhverja almenna yfirlýsingu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um rannsóknir vegna svonefndra fangaflugvéla. Ég var að svara bréfi Helga og sagði, að efni þess gæfi ekki tilefni til þess að hefja opinbera rannsókn eða eins og segir í bréfi mínu: „Samkvæmt mati dómsmálaráðuneytisins uppfyllir málsreifun í bréfi yðar og tilmæli yðar þar um opinbera rannsókn ekki þau skilyrði, sem lög og meginreglur um meðferð opinberra mála gera, til að orðið verði við framangreindu erindi yðar um opinbera rannsókn.“

Í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins var Helgi Hjörvar sagður „ötull talsmaður öryrkja á alþingi“ og var það Björg Eva þingfréttaritari hljóðvarpsins, sem gaf Helga þessa einkunn. Er það ný stefna, að gefa þingmönnum einkunnir og kenna þá við einstaka málaflokka?

Hvort heldur rætt er um svar mitt við bréfinu, sem Helgi Hjörvar sendi mér, eða umræður um málefni öryrkja, er með öllu ástæðulaust að gera meira úr hlut Helga Hjörvars í fréttum en annarra þingmanna. Úr því að fréttamaður ríkissjónvarpsins kaus að ræða við einhvern vegna bréfs frá mér, hefði að minnsta kosti mátt vænta þess, að hann reyndi að ná tali af mér. Að sjálfsögðu eru fleiri ötulir talsmenn öryrkja á alþingi en Helgi Hjörvar, eða telur fréttastofa hljóðvarpsins svo ekki vera?