7.11.2005 21:51

Mánudagur, 07. 11. 05.

Tók þátt í umræðum utan dagskrár á alþingi um nýskipan lögreglumála og má finna ræðu mína í umræðunum hér.

Engu er líkara en Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, telji niðurstöðu prófkjörs okkar sjálfstæðismanna og hina miklu þátttöku í því stefnt gegn sér á einhvern hátt, því að hann hefur birt auglýsingu um sjálfan sig, blaðagrein og auglýsingu í útvarpi með áskorun um að lesa greinina, eftir að úrslit prófkjörsins lágu fyrir. Ég man ekki eftir framgöngu af þessum toga áður.

Hver étur það eftir öðrum í vangaveltum um mikið fylgi okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík, að ekki sé að marka það, þar sem aðrir flokkar hafi ekki skipað á lista sína eða efnt til prófkjörs. Þetta er dæmigert vanhugsað fjölmiðlahjal, því að vinstri/grænir hafa þegar efnt til prófkjörs með þátttöku um 300 manns og fékk Árni Þór Sigurðsson, sem verið hefur oddviti v/g á þessu kjörtímabili um 140 atkvæði, ef ég man rétt, í annað sæti á listanum.

Hanna Birna Kristjánsdóttir var í morgunútvarpi RÚV að ræða um úrslit prófkjörsins og svaraði þar meðal annars einhverju, sem Birgir Guðmundsson, sem er fræðimaður Háskólans á Akureyri fyrir RÚV, þegar leita þarf álits á stjórnmálum. Sagðist Hanna Birna ekki skilja í þessu sífellda tali um einhverja arma innan Sjálfstæðisflokksins, því að flokksmenn væru aðeins í Sjálfstæðisflokknum en ekki neinum armi hans.

Þegar vinstrisinnar, sem ekkert þekkja til innviða Sjálfstæðisflokksins, eru fengnir til að segja álit sitt á innri málefnum flokksins, tala þeir líklega af þekkingu og reynslu sinni af öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum. Ég veit ekki, hvernig Birgir Guðmundsson aflar sér vitneskju um málefni Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur að minnsta kosti aldrei talað við mig en telur sér þó fært að lýsa einhverjum skoðunum, sem ég á að hafa á mönnum og málefnum. Hvaða háskólafræði ætli þetta séu?