5.11.2005 20:01

Laugardagur, 05. 11. 05.

Þegar þetta er skrifað er ég fyrir austan fjall og fylgist með talningu atkvæða í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík. Prófkjörið hefur verið öllum frambjóðendum til mikils sóma og þátttakan er gríðarlega góð, en um 3000 manns hafa gengið í flokkinn í tilefni af prófkjörinu og félagar í Reykjavík eru nú um og yfir 20.000.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er vel að sigrinum kominn, en hann virðist ljós miðað við tölur, þegar á þriðja þúsund atkvæði hafa verið talin. Eins og ég hef áður sagt, þótti mér ekki annað koma til álita, þegar ég sagði af mér oddvitasætinu í borgarstjórnarflokknum, en að Vilhjálmur Þ. tæki við af mér. Honum hefur tekist vel að virkja borgarstjórnarflokkinn til samstarfs um stefnu, sem hefur að nokkru verið kynnt nú þegar og verður lögð til grundvallar í borgarstjórnarkosningunum.

 

Um leið og ég óska Vilhjálmi Þ. til hamingju fagna ég því, hve góðan og afgerandi stuðning Hanna Birna Kristjánsdóttir fær í annað sætið. Raunar benda tölurnar núna til þess, að allar konurnar í prófkjörinu geti vel við unað og árangur Sifjar Sigfúsdóttur vekur sérstaka athygli.

 

Mér þótti gott og gaman að sjá, hve vel Gísli Marteinn Baldursson tók úrslitunum í sjónvarpsfréttunum. Enginn vafi er á því, að Gísli Marteinn hefur styrkt sig á stjórnmálavettvangi í þessari kosningarbaráttu, þótt hann hafi ekki náð markinu, sem hann setti sér.

 

Ég ætla ekki að segja meira um prófkjörið fyrr en úrslitin eru kunn í heild.