16.11.2005 20:17

Miðvikudagur, 16. 11. 05.

Dagur íslenskrar tungu! Ánægjulegt að hann hefur þróast á þann veg, sem ég vildi, þegar ég lagði til í ríkisstjórn á sínum tíma, að afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar yrði helgaður íslenskri tungu. Með því að fara í dagbók mína á þessum degi og lesa ræður mínar fyrstu daga íslenskrar tungu má sjá, hvernig þetta fór allt af stað.

Í dag hófst stóra upplestrarkeppnin og börn gerðu margt til hátíðabrigða í skólum sínum, ég hafði verið boðinn austur á Hvolsvöll til að hlusta á grunnskólabörn þar lesa úr Njálu en komst ekki, því að í hádeginu var ég í stofu 201 í Odda, húsi Háskóla Íslands, og ræddi þar um hverju ég teldi brýnast að dóms- og kirkjumálaráðuneytið sinnti í þágu ungmenna, en Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor í félagsvísindadeild, hafði boðið mér að ræða þetta á málþingi og svara fyrirspurnum, sem ég gerði mér til ánægju og vonandi einhverjum til fróðleiks, en áheyrendur voru margir bæði úr háskólanum og utan hans.

Þegar ég hlustaði á kvöldfréttir,  heyrði ég, að lesið hefði verið úr verkum mínum í héraðsdómi í dag, en það gerðu verjendur Baugsmanna til að leiða sönnur að óvild minni í garð skjólstæðinga sinna. Ég vona, að textinn hafi ekki verið of slæmur til lestrar á degi íslenskrar tungu og þykir mér í sjálfu sér sögulegt, að vefsíða mín skuli á þeim degi verða skráð í dómabækur. Má með sanni segja, að  síðan rati víða og verði mörgum til umþenkinga, nú dómurum til að meta hæfi mitt sem dómsmálaráðherra. Ég hefði kannski átt að fara að ráðum Guðrúnar Helgadóttur, sem hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í dag, en á sínum tíma taldi hún það mikla ósvinnu, að ég skyldi ætla að nota netið til samskipta við almenning, hvernig stjórnmálamanni dytti slík vitleysa í hug?

Baugsmiðlarinir fara mikinn vegna þess, að tæknileg bilun leiddi til þess, að ekki var unnt að sýna viðtal við Jón Ólafsson, kaupsýslumann kenndan við Skífuna, í Kastljósi á mánudagskvöld.  Er furðulegt að fylgjast með því, hvílíku hugarangri þetta hefur valdið þar á bæ. Hvernig skyldi þessu blessaða fólki hafa liðið í kvöld, þegar fréttatími Stöðvar 2 komst út með miklum harmkvælum? Og fyrsta fréttin var um, að á Reykjavíkurflugvelli væri vél, grunuð um flutninga fyrir CIA. Skyldi ekki einhvern samsærissmiðanna hafa grunað, að CIA væri að trufla útsendingar Stöðvar 2? Eða voru þetta kannski ósköp meinlaus tæknileg vandræði?