18.11.2005 22:31

Föstudagur, 18. 11. 05.

Á fundi ríkisstjórnarinnar lagði ég fram frumvarp til breytinga á alm. hegningarlögum í því skyni að þyngja viðbrögð og viðurlög við heimilisofbeldi. Hefur lengi verið rætt um nauðsyn endurskoðunar vegna slíkra brota og vann refsiréttiréttarnefnd undir formennsku Róberts Spanó þessar tillögur að minni ósk.

Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, til margra áratuga tilkynnti í dag, að hann yrði ekki í framboði oftar og mundi helga sig formennsku í verkefnisstjórn vegna byggingar hátæknisjúkrahúss. Alfreð hefur verið burðarás í R-listanum og hann átti í fullu tré við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem borgarstjóra og setti hennar oftar en einu sinni stólinn fyrir dyrnar.

Orkuveita Reykjavíkur hefur orðið ríki í ríkinu innan Reykjavíkurborgar undir stjórn Alfreðs og væri gengið fram á þann veg gagnvart ríkisstjórn og alþingi við stjórn fyrirtækis í þágu ríkisins og Alfreð hefur gert gagnvart borgarráði og borgarstjórn við stjórn orkuveitunnar, mundi aldeilis hvína í stjórnarsinnum og stjórnarandstöðu. Alfreð hefur hins vegar haldið R-listanum og fulltrúum Akurnesinga í greip sinni í stjórn orkuveitunnar og ekki hikað við að beita bolabrögðum gagnvart sjálfstæðismönnum.