1.11.2005 21:39

Þriðjudagur, 01. 11. 05.

Sat borgarstjórnarfund og hlustaði þar á furðulegan málflutning Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa frjálslyndra, vegna tillögu hans varðandi hugsanlega sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun til ríkisins. Í fyrsta lagi endurtók hann það, sem hann hefur margsagt, að hann hafi verið hrakinn úr Sjálfstæðisflokknum vegna skoðana sinna á umhverfismálum, en hann varð undir í atkvæðagreiðslu á landsfundi flokksins og sætti þar þungri gagnrýni. Í öðru lagi ítrekaði hann ósannindi sín um, að við sjálfstæðismenn í borgarstjórn hefðum ákveðið að selja Orkuveitu Reykjavíkur. Í þriðja bætti hann nýjum þætti inn í þessa rullu sína. Hann er sá, að undir ritstjórn minni hafi verið séð til þess í Sögu Stjórnarráðs Íslands, að Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur léti að engu getið undirskriftasöfnun Umhverfisvina undir forystu og á kostnað Ólafs F., en hún hafi orðið til þess „að breyta almenningsálitinu bæði í Noregi og á Íslandi og bjarga þannig náttúruperlunni á Eyjabökkum.“

Ég kann að gera þessum ótrúlega málflutningi betri skil síðar, því að hann endurspeglar eitt sérkennilegasta viðhorf til stjórnmála, sem ég hef kynnst, enda sagði ég í borgarstjórn, að mér þætti furðulegt að sitja þar undir ásökunum fyrir að hafa þurrkað Ólaf F. Magnússon út úr Íslandssögunni og í raun virtist þessi tillaga hans aðeins flutt í því skyni, að hann gæti talað um sjálfan sig, ofsóknir sjálfstæðismanna í sinn garð og  eigin fórnir í þágu umhverfismála.

Ekki er langt síðan Ólafur F. Magnússon lenti í útistöðum við stjórnendur Kastljóss og fór um þá illum orðum fyrir að útiloka sig. Nú ræðst hann að mér fyrir að hafa útilokað sig frá Sögu Stjórnarráðsins! Hins vegar hafi ég séð til þess, að þar sé sagt ítarlega frá undirskrifasöfnun Varins lands.