15.11.2005 22:56

Þriðjudagur, 15. 11. 05.

Flaug norður á Akureyri klukkan 17.00 og talaði um stjórnskipun og stjórnsýslu í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins, flaug til baka kl. 21.45 og lenti um kl. 22.30.

Ég ræddi meðal annars um þann einstæða atburð, þegar Ólafur Ragnar Grímsson beitti synjunarvaldinu á fjölmiðlalögin. Minnti ég á, að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins hefði verið samþykkt að afnema þá grein stjórnarskrárinnar, sem veitir forseta Íslands þetta synjunarvald. Það sé miklu nær að hafa ákvæði í stjórnarskrá, sem mæli fyrir um þjóðaratkvæðagreiðslu og geri ráð fyrir því, að ákvörðun um hana hafi aðdraganda sem byggist á gegnsæi og umræðum, en byggist ekki á því, að tekin sé ákvörðun fyrirvaralaust og án alls efnislegs rökstuðnings og ekki sé unnt að ræða hana, þar sem ákvörðunin sé tekin af þeim, sem sé ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og friðhelgur. Erfitt sé að átta sig á því, að stjórnarhættir af því tagi samrýmist kröfum um skýra ábyrgð á stjórnarathöfnum og þær byggist á augljósum rökum.