18.1.2006 18:46

Miðvikudagur, 18. 01. 06.

Svaraði þremur fyrirspurnum á alþingi, um nýtt fangelsi í Reykjavík, Barnahús og kynferðisbrot gegn börnum og afleysingar presta.

Umræður urðu nokkrar um svör mín við fyrri tveimur fyrirspurnunum en fyrir utan fyrirspyrjanda geta þingmenn gert athugasemd í eina mínútu vegna hverrar fyrirspurnar eða svars við henni.

Unnið er að því að gera framkvæmda- og tímaáætlun vegna nýs fangelsis í Reykjavík. Hegningarhúsið við Skólavörðustíg er komið svo mjög til ára sinna, að það fullnægir ekki nútímakröfum, en vegna menningargildis hússins verður því ekki breytt til að koma til móts við þessar kröfur. Raunar er furðulegt til þess að hugsa, að fyrir um 40 árum voru lagðar fram og samþykktar tillögur að aðalskipulagi Reykjavíkur, sem gerði ráð fyrir breiðgötu, þar sem hegningarhúsið stendur.

Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingu, spurði mig um Barnahúsið og kynferðisbrot gegn börnum. Ég er ekki sammála þeim skoðunum, sem fram koma í spurningum Jóhönnu, enda færði hún ekki afdráttarlaus rök fyrir þeim. Samkvæmt lögum er það á valdi dómara að ákveða, hvort börn séu yfirheyrð í dómshúsi eða Barnahúsi. Ég hef ekki haldbærar neinar tölur um það, hvort húsið er meira notað í þessu skyni, en víst er, að ekki er endilega skynsamlegt að flytja börn utan Reykjavíkur í Barnahús til yfirheyrslu - enda hafa dómarar utan Reykjavíkur víða búið þannig um hnúta, að auðvelda börnum að gefa skýrslu við embætti sín og hið sama er að segja um héraðsdóm Reykjavíkur.

Barnahús er gott framtak og hefur orðið ýmsum þjóðum fyrirmynd, til dæmis Svíum og Norðmönnum auk þess sem Bandaríkjamenn hafa sýnt starfseminni áhuga. Ég er viss um, að starfsemi í húsinu muni halda áfram að dafna og það að þjóna góðum tilgangi sínum, þótt á valdi dómara sé að ákveða, hvar þeir taka skýrslur af börnum.