Þriðjudagur, 03. 01. 06.
Á fundi ríkisstjórnarinnar kl. 09.30 lagði ég fram minnisblað, þar sem ég lýsti áformum mínum varðandi nýskipan lögregluumdæma og málefni tengd henni. Var síðan send út fréttatilkynning um málið frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.
Sagt var frá málinu á þann veg í hljóðvarpi ríkisins kl. 18.00, að rætt var við Pál Brynjarsson, sveitarstjóra í Borgarnesi, sem lýsti óánægju sinni yfir því, að lykilembætti lögreglu á Vesturlandi yrði á Akranesi en ekki Borgarnesi eins og áður hafði verið orðað og í fréttum NFS kl. 18.30 á þann veg, að bæjarstjórarnir í Kópavogi og Hafnarfirði væru óánægðir. Var rætt við Lúðvík Geirsson, bæjarstjóra í Hafnarfirði, sem sagði eitthvað á þá leið, að hann vissi, hvað hann hefði en ekki hvað við tæki. Ekki var minnst á málið í 19.00 fréttum sjónvarps ríkisins, en þar var hins vegar sagt frá því að landhelgisgæslan ætlaði að taka þátt í skipulagi átaki undir forystu Einar K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra gegn sjóræningjaveiðum á Reykjaneshrygg, en fréttamaðurinn sá ástæðu til að lýsa því frá eigin brjósti, að þetta gerði gæslan án þess að fá aukafjárveitingu og þótt hún væri illa tækjum búin. Þetta var sem sagt allt á jákvæðu nótununum!
Ástæðuna fyrir því að ég valdi Akranes skýrði ég fyrir Páli sveitarstjóra og samstarfsfólki hans á fundi í ráðuneytinu, en rök mín eru þau, að löng og góð reynsla er af rannsókn lögreglumála á Akranesi, en lykilembætti gegna einmitt lykilhlutverki á því sviði. Taldi ég, að sú efnislega ástæða ætti að vega þyngra en lega Borgarness. Með því að stofna nýtt lögregluembætti á höfuðborgarsvæðinu frekar en fella minni embætti inn í hið stærsta er komið til móts við sjónarmið, sem fram komu á kynningarferli málsins, en það hefur staðið í tæplega eitt ár. Markmið breytinganna er að efla löggæslu en ekki draga úr henni eins og mátti skilja á orðum bæjarstjórans í Hafnarfirði. Ég átta mig ekki á því með hvaða rökum hann heldur þeirri skoðun fram - hitt er síðan alþekkt, að margir óttast breytingar í stað þess að sjá tækifæri í þeim og leggja sig því ekki fram um að nýta þau - þeir sitja einnig oft eftir með sárt enni.
Björk Vilhelmsdóttir hefur ákveðið að segja skilið við vinstri/græna í borgarstjórn Reykjavíkur og fara í prófkjör Samfylkingarinnar. Hvar er hneykslunarkórinn um að hún eigi að segja af sér? Lætur hann aðeins í sér heyra, þegar einhver gengur til liðs við Sjálfstæðisflokkinn?