Mánudagur, 23. 01. 06.
Í DV í dag er birtur af vefsíðu Jónasar Kristjánssonar útúrsnúningur úr ræðum, sem ég flutti á alþingi 18. janúar, þegar ég svaraði spurningum Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um skýrslutöku af börnum, Barnahús og fleira. Látið er eins og ég sé talsmaður einhverra sérstakra sjónarmiða við aðferðir við slíka skýrslutöku og þar með óvinveittur börnum í neyð, ef ég skil málflutninginn rétt. Lítil takmörk virðast fyrir því, hve sumir kjósa að leggjast lágt í málflutningi sínum eins og nýleg dæmi sanna.
Til að auðvelda þeim, sem áhuga hafa á skoðunum mínum á þessu máli, hef ég sett ræðurnar, sem ég flutti á alþingi um það hér inn á síðuna, en þar svara ég fyrirspurn þingmannsins og vísa til þeirra laga, sem gilda hér á landi um þessi mál.
Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag segir, að ég hafi ekki lagt rétt út af skoðun blaðsins á stað fyrir Háskólann í Reykjavík í pistli mínum frá því í gær. Í Staksteinum segir: „Það er þess vegna ekki rétt útlegging (hjá mér) að Morgunblaðið vilji Háskólann í Reykjavík á blettinn í Vatnsmýrinni, sem Björn fjallar um (þ. e. milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar). Og sízt af öllu er Morgunblaðið á móti umhverfisumræðum um þennan stað.“
Ég bið Morgunblaðið afsökunar á að hafa misskilið afstöðu þess til staðarvals fyrir Háskólann í Reykjavík, um leið og ég viðurkenni, að það var ekki fyrr en ég las Staksteina í morgun, að ég áttaði mig á þessari afstöðu blaðsins, tel ég mig þó hafa nokkra reynslu af því að ráða í skoðanir þess og jafnvel lesa þar á milli lína. Umhverfisumræður á dulmáli eru lítils virði.
Í þingu í dag fór Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, mikinn vegna þess, sem hann kallaði „fjáraustur“ í prófkjöri framsóknarmanna í Reykjavík og lagði fram fyrirspurn til forsætisráðherra af því tilefni. Engu var líkara en Sigurjón teldi Framsóknarflokkinn kosta prófkjörið. Frjálslyndir vita lítið um prófkjör eða hvernig að þeim er staðið. Þeir hafa aðrar aðferðir, þannig lýsti Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi frjálslyndra, því einn yfir, að hann yrði í fyrsta sæti á lista frjálslyndra í Reykjavík. Við skulum vona, að það verði flokknum ekki dýrkeypt.