10.1.2006 20:13

Þriðjudagur, 10. 01. 06.

Áliti mínu á Baugsmiðlinum DV hef ég lýst oft hér á síðunni og í dag voru sagðar sorgarfréttir af afleiðingum forsíðufréttar blaðsins. Hve lengi ætla eigendur DV að láta blaðið veitast að varnarlausu fólki á sinn kostnað?

Vegna þess sem ég hef sagt um DV og aðra Baugsmiðla hér á vefsíðu minni undanfarin misseri, vildu lögmenn Baugs, að ég yrði dæmdur vanhæfur sem dómsmálaráðherra til að setja ríkissaksóknara í Baugsmálinu.

Morgunblaðið ræðir þessa kröfu og fagnar niðurstöðu dómstóla um að hafna henni í leiðara sínum í dag og segir meðal annars:

„Ráðherrum er vissulega falið stjórnsýsluvald, sem þýðir að þeir verða að gæta að hæfisreglum stjórnsýslulaga, t.d. hvað persónuleg tengsl og hagsmunatengsl varðar. Þeir verða sömuleiðis að forðast að hægt sé að efast um óhlutdrægni þeirra í einstökum ákvörðunum.

Ráðherrar eru hins vegar jafnframt stjórnmálamenn, sem eiga beinlínis að hafa skoðun á þjóðfélagsmálum. Í okkar breytta fjölmiðlaumhverfi er æ oftar kallað eftir þessum skoðunum og viðhorfum stjórnmálamanna. Og sumir hafa þeir farið þá leið að miðla skoðunum sínum beint um eigin fjölmiðil á Netinu, eins og Björn Bjarnason gerir. Það er ekki hægt að ætlast til þess að ráðherrar þegi um menn og málefni af ótta við að gera sig vanhæfa til stjórnsýsluákvarðana. Það væri ekki í þágu hinnar lýðræðislegu umræðu. “

Mér er sem sé heimilt að gagnrýna Baug og Baugsmiðla hér á síðunni án þess að ég sé vanhæfur til embættisverka.