Föstudagur, 20. 01. 06.
Alþingi kom saman til fundar kl. 10.30 og átti þá að ganga til atkvæðagreiðslu um kjaradómsmálið svonefnda eftir aðra umræðu þess. Í upphafi fundar kvaddi Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður frjálslyndra, sér hljóðs um störf þingsins og fór að ræða um að engin loðna hefði fundist og beindi máli sínu til sjávarútvegsráðherra. Umræður um störf þingsins mega standa í 20 mínútur og hafa þær þróast á þann veg, að þar virðast menn geta tekið til umræðu allt, sem þeim kemur til hugar þann daginn.
Áður en þessar 20 mínútur voru liðnar tók Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður menntamálanefndar, til máls og skýrði þingheimi frá því, að fyrr um morguninn hefði menntamálnefnd komið saman og þar hefðu verið lögð fram gögn frá ESA, eftirlitsstofnun EFTA, sem snerta frv. til laga um að breyta ríkisútvarpinu í ríkishlutafélag. Stjórnarandstaðan undir forystu Marðar Árnasonar, Samfylkingu, hafði gert rekistefnu yfir því að fá ekki þessi gögn. Sigurður Kári sagði þau hafa verið lögð fram í trúnaði í nefndinni að ósk ESA og síðan hefðu embættismenn ráðuneyta komið að skýra þau en þá hefðu nefndarmenn vinstri/grænna og Samfylkingar farið af nefndarfundi. Sagði Sigurður Kári eðlilegt, að hann skýrði frá þessu undir umræðum um störf þingsins og teldi hann þetta mál frekar falla undir þennan lið en umræður um loðnu.
Í þann mund sem Sigurður Kári var að ljúka máli sínu var mikill fyrirgangur við þær dyr þingsalarins, þar sem ég sit, það er ytri austurdyr, og inn stormaði Mörður Árnason með hendur um háls sér og var að bögglast við að hnýta á sig slifsi, hann bað höstugur um orðið en rauk síðan út úr salnum og inn í hliðarherbergi til að ljúka við að setja á sig hálstauið, áður en hann sté í ræðustól. Sagðist hann hafa verið að fylgjast með umræðunum í sjónvarpi í skrifstofu sinni handan Austurvallar, þegar hann heyrði Sigurð Kára hefja máls á fundi menntamálanefndar. Kvartaði hann undan því og taldi óþinglegt, en Sigurður Kári sagði síðar í umræðunum, að hann hefði látið þess getið í nefndinni, að hann mundi skýra frá fundi hennar í þingsalnum.
Eftir ræðu Marðar voru 20 mínúturnar til að ræða störf þingsins liðnar og þá hófust umræður um fundarstjórn forseta, sem geta einnig staðið í 20 mínútur. Ég ætla ekki að rekja þær umræður hér en þær einkenndust mest af vörn stjórnarandstæðinga í menntamálanefnd á fjarveru þeirra, þegar embættismenn skýrðu nefndinni frá ESA-gögnunum, auk þess sem þeir kvörtuðu undan því, að gögnin hefðu verið afhent þeim í trúnaði.
Klukkan var orðin tæplega 11.30 þegar þessum umræðum lauk og höfðu þær þá staðið um 20 mínútum lengur en þingsköp segja. Atkvæðagreiðslan tók fáeinar mínútur.
Klukkan 15.30 var að nýju atkvæðagreiðsla í þinginu eftir að þriðju umræðu um kjaradómslögin lauk, það er lögin um að frysta laun þeirra, sem lúta kjaradómi, með 2,5% hækkun en ekki þeirri hækkun, sem dómurinn ákvað fyrir jól. Var frumvarpið samþykkt og sent ríkisstjórn sem lög frá alþingi.
Tilraunir stjórnarandstöðunnar undir forystu Marðar Árnasonar til að beita einhverjum leikbrögðum til að hindra framgang frumvarpsins um ríkisútvarpið taka á sig margar myndir og þeim er áreiðanlega ekki lokið, þótt þessi ESA-flétta hafi runnið út í sandinn, en síðdegis tilkynnti fjármálaráðuneytið, sem fer með mál ESA innan stjórnarráðsins, að trúnaði hefði verið létt af skjölunum.
Þá má enn draga þann lærdóm af því, sem gerðist í þinginu, að rík skylda hvílir enn á karlmönnum meðal þingmanna að vera sæmilega til fara í þingsalnum og þar með hálsbindi. Ber að fagna því, að forseti þingsins skuli hafa gert þingmönnum þetta ljóst eftir atvikið í umræðunum um stefnuræðu forsætisráðherra sl. haust.