Föstudagur, 06. 01. 06.
Hætt var við þrettándagleði hér í Fljótshlíðinni vegna veðurs í kvöld eins og víðar. Úrkoman er mikil og rokið. Ég átti ekki von á því, að hrossin yrðu vör við mig, því að þau stóðu svo fjarri girðingunni, rokið var mikið og skyggnið lítið. Ég kallaði hátt og flautaði, hrossin tóku viðbragð og síðan sprettinn til mín.
Ariel Sharon liggur banaleguna í Jerúsalem. Hann hefur borið höfuð og herðar yfir aðra ísraelska stjórnmálamenn undanfarin ár og farið sínu fram af festu og öryggi, þótt á móti hafi blásið. Mér hefur alltaf þótt einkennileg gagnrýnin á Sharon fyrir að hafa farið á Musterishæðina á sínum tíma, sem var talið ögrun við múslíma, en dugði honum til sigurs í þingkosningum í Ísrael.
Áróðurinn í vestrænum fjölmiðlum gegn Sharon hefur aldrei gefið rétta mynd af stöðu hans meðal Ísraela. Ef marka hefði mátt, hve oft Sharon væri að pólitísku falli kominn, hefði engan grunað, að hann hyrfi úr stjórnmálum á sóttarsæng.