28.1.2006 17:27

Laugardagur, 28. 01. 06.

Var boðið að flytja hátíðarræðu við útskrift nemenda í Viðskiptaháskólanum á Bifröst klukkan 14.00. Það var ánægjulegt að sjá gleði þeirra, sem þarna tóku við skírteinum sínum. Háskólinn á Bifröst hefur vaxið hraðar og meira en nokkurn gat grunað. Ég ákvað að nota þetta tækifæri til að svara nokkru þeirri gagnrýni, sem haldið hefur verið fram gegn háskólastefnunni, sem mótuð var með lagabreytingunni frá 1. janúar 1998. Ég tel, að stefnan hafi heppnast prýðilega og enn er verið að festa hana í sessi með nýju frumvarpi að háskólalögum.